28.2.2013 22:20

Fimmtudagur 28. 02. 13

Þegar Össur Skarphéðinsson, nýorðinn utanríkisráðherra, hitti Barack Obama Bandaríkjaforseta í Strassborg vorið 2009 á 60 ára afmæli NATO bauð Össur forsetanum að heimsækja Ísland og lét eins og Obama ætlaði við fyrsta tækifæri að þiggja boðið. Hann hefur ekki komið og gerir ekki á meðan Össur er utanríkisráðherra.

Í gær hitti Össur nýjan utanríkisráðherra Bandaríkjanna, John Kerry, á fundi í Róm. Í frétt utanríkisráðuneytisins vegna fundarins segir:

„Í viðræðum [Össurar] við John Kerry utanríkisráðherra Bandaríkjanna ræddu ráðherrarnir samvinnu Íslands og Bandaríkjanna á Norðurslóðum og áhuga Kerrys á því að Bandaríkjamenn gerðust aðilar að hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna. Fram kom sterkur vilji hjá Kerry til að nýta reynslu og þekkingu Íslendinga á sviði fiskveiðistjórnunar og kvaðst hann vilja fá sérfræðinga og stjórnmálamenn til ráðgjafar á því sviði sem fyrst. Þá bauð Össur Kerry í heimsókn til Íslands og lýsti Kerry áhuga á að þiggja boðið.“

Össur segir ekki frá því í þessari tilkynningu að hann hafi boðið Kerry að fá Ólaf Ragnar Grímsson sem ræðumann um fiskveiðistjórnun. Þegar Össur sagði frá tillögu sinni við fréttamann mátti velta fyrir sér hvort hann hefði gert grín að forseta Íslands í samtali við utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna.

Enginn úr stjórnarliðinu kemur til álita sem ræðumaður í Bandaríkjunum um fiskveiðistjórnun, þar eru menn ekki að leita eftir sjónarmiðum gegn hinum íslensku reglum heldur þeim sem skilja þær og geta rökrætt á þann veg að aðrir átti sig á hve miklum stakkaskiptum kvótakerfið hefur valdið fyrir íslenskan sjávarútveg og þar með þjóðina alla.