Miðvikudagur 20. 02. 13
Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, telur sig hafa stöðu til að knýja fram afgreiðslu hins misheppnaða stjórnlagafrumvarps með því að flytja tillögu um vantraust á ríkisstjórnina. Þrír þingmenn Hreyfingarinnar hafa haldið ríkisstjórninni á floti frá jólum 2011 í þeirri trú að á þann veg tryggðu þeir framgang nýrrar stjórnarskrár. Þór telur að stjórnarskráin 1944/1874 hafi valdið bankahruninu haustið 2008.
Enginn þingmaður hefur talað verr um alþingi en Þór Saari. Hann kveður sér varla hljóðs án þess að hallmæla þinginu sem stofnun. Þykist hann hafa stöðu til að segja öllum til syndanna og nú tekur hann lokasnúninginn með því að vilja fella ríkisstjórnina.
Arnar Páll Hauksson, fréttamaður ríkisútvarpsins, komst að þeirri niðurstöðu í samtali við Björn Val Gíslason, þingmann VG og varaformannsefni, í Speglinum í kvöld að vantrausttillagan yrði ekki samþykkt. Guðmundur Steingrímsson mundi fleyta ríkisstjórninni áfram og Róbert Marshall sæti utan þings með tryggan stuðningsmann ríkisstjórnarinnar í sinn stað í þingsalnum. Björn Valur róaðist í samtalinu við Arnar Pál og samsinnti honum, stjórninni væri borgið. Var þeim viðmælendunum báðum létt.
Augljóst er að fréttatofa ríkisútvarpsins vill ekki að ríkisstjórnin falli. Hún hefur jafnt og þétt reynt að róa Þór Saari og félaga undanfarna daga með fréttum af sáttatilraunum í stjórnarskrármálinu. Þær tilraunir eru aðeins á vitorði samfylkingarfólks enda snúast þær um sættir innan Samfylkingarinnar eins og hér er lýst.
Þór Saari sem alla skammar úr ræðustól alþingis og sakar um fávisku eða eitthvað annað enn verra er ekki betur að sér um stjórnarhætti en svo að hann heldur að unnt sé að mynda „starfsstjórn“ allra flokka fram að kosningum verði stjórn Jóhönnu og Steingríms J. felld þrátt fyrir stuðning Spegilsins. Starfsstjórn er stjórn sem ekki nýtur trausts meirihluta alþingis en situr þangað til mynduð er stjórn sem nýtur stuðnings meirihluta þingmanna.
Vilji Þór Saari ekki að Jóhanna og Steingrímur J. sitji í starfsstjórn fram að kosningum snúist meirihluti þings gegn þeim verður forseti Íslands að koma til sögunnar við myndun nýrrar stjórnar. Stjórn allra flokka á þingi yrði þjóðstjórn. Þór Saari vill komast í slíka stjórn (kannski sem forsætisráðherra?) síðustu vikurnar sem hann situr á þingi. Líkindi til þess að það verði kunna að valda falli vantrauststillögu hans.