Sunnudagur 10. 02. 13
Þorrablótið í Fljótshlíðinni heppnaðist vel og var fjölmennt. Milt veðrið minnti hins vegar ekki mikið á þorrann. Enn er beðið ákvarðana um næstu skref eftir að heita vatnið fannst í landi Goðalands þar sem þorrablótið var haldið. Sveitarfélagið á landið og er það því alfarið á valdi sveitarstjórnarinnar að grípa til næstu ráða vegna heita vatnsins.
Í gær rifjaði ég upp að Ólafur Jóhannesson samdi lögin um verðtrygginguna við eldhúsborðið á Aragötunni eins og hann sagði sjálfur. Á Vef-Þjóðviljanum ræddu menn einnig um fyrri ákvarðanir framsóknarmanna og sögðu:
„Er ekki hin helsta tillagan af flokksþinginu [Framsóknarflokksins 2013] sú að „húsnæðislán verði leiðrétt á sanngjarnan hátt“? Eru það ekki helst verðtryggðu 90% lánin sem flokkurinn hafði forgöngu um að Íbúðalánasjóður fór að veita fyrir nær áratug? Lánin sem flokkurinn lét hækka úr 70 í 90% vill hann nú „leiðrétta“ til baka um 20%.“
Ég man vel eftir kosningabaráttunni 2003 og framboðsfundi í banka þar sem menn áttu ekki nógu sterk orð til að lýsa hneykslan sinni í 90% loforði framsóknarmanna. Fundarmenn voru ekki í nokkrum vafa um að þetta væri hið mesta óráð sem mundi leiða til ófarnaðar fyrir bankana og lántakendur. Framsóknarmenn sátu áfram í stjórn með okkur sjálfstæðismönnum eftir kosningarnar 2003. Þeir báru pólitíska ábyrgð á Íbúðarlánasjóði og 90% lánin komu til sögunnar.
Í stað þess að bankarnir mótmæltu þessu ráðslagi hjá Íbúðarlánasjóði reyndu þeir að yfirbjóða hann með 100% lánum. Eftir það áttaði ég mig betur á því en áður að ekki er allt sem sýnist í tali bankamanna um hvað sé skynsamlegast að gera á markaðnum. Nú vitum við til hvers þessi yfirboð leiddu.