9.2.2013 23:00

Föstudagur 08. 02. 13

Árangur Vöku í stúdentaráðskosningunum sem kynntur var í gær er glæsilegur. Félagið fékk 77% atkvæða. Röskva sem sameinar félagshyggjufólk í Háskóla Íslands, stuðningsmenn ríkisstjórnarflokkanna, fékk aðeins 6 af 27 stúdentaráðsliðum. Nú var í fyrsta skipti kosið eftir nýjum reglum. Kosnir voru sviðsfulltrúar á fimm fræðasviðum háskólans.. Saman mynda sviðsfulltrúarnir eitt stúdentaráð.

Þetta er  glæsilegasti sigur í sögu Vöku.

Frá því er sagt á vefsíðu BBC að Jón Ásgeir Jóhannesson í Baugi hafi verið dæmdur í eins árs skilorðsbundið fangelsi fyrir skattsvik auk þess eigi hann að greiða 62 milljónir króna í sekt. Vitnað er í Jón Ásgeir sem segir að sektin sé „peanuts“ miðað við kostnaðinn við stofna til málsins. BBC segir frá fyrirtækjum á Bretlandi þar sem Jón Ásgeir hafi átt hlut áður en hin hnattræna fjármálakreppa hófst.

Þess er getið að Kristín Jóhannesdóttir, systir Jóns Ásgeirs, og Tryggvi Jónsson, fyrrverandi samstarfsmaður þeirra, hafi einnig verið fundin sek. Baugur hafi lýst sig gjaldþrota árið 2009 og þá hafi hann skuldað 1 milljarð punda (200 milljarða ISK).

Yfirlýsingin sem Jón Ásgeir birti eftir að dómur hæstaréttar féll fimmtudaginn 7. febrúar er enn eitt dæmið um hroka hans í garð þeirra sem hann telur að geri á sinn hlut. Hann leggur á sig krók til að ráðast á mig eins og vandi hans er þegar þessi mál hans eru á döfinni.

Jón Ásgeir ætlar fara með málíð fyrir mannréttindadómsólinn í Strassborg. Á sínum tíma kærði hann niðurstöðuna í sakamálinu gegn sér til Strassborgar. Dómarar töldu málið ekki eiga heima hjá dómstólnum. Þá var kæran meðal annars reist á því að um pólitísk málaferli væri að ræða og vísað til orða sem ég hafði látið fara því til staðfestingar.