26.2.2013 22:30

Þriðjudagur 26. 02. 13

Ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins um lokun Evrópustofu, útibús stækkunardeildar ESB á Íslandi, hefur valdið uppnámi á meðal aðildarsinna. Sigmundur Ernir Rúnarsson, fráfarandi þingmaður Samfylkingarinnar, telur ályktunina jafngilda því að landinu verði lokað!

Fréttastofu ríkisútvarpsins tókst að finna háskólakennara, Pétur Dam Leifsson, lektor í Evrópurétti við Háskóla Íslands, sem hélt uppi vörnum fyrir Evrópustofu í fréttum þriðjudaginn 26. febrúar. Hann bar starfsemi Evrópustofu saman við Fulbright-stofnunina sem veitir styrki til háskólanáms í Bandaríkjunum og leitaðist þar með við að blekkja hlustendur. Starfsemin er gjörólík.

Pétur Dam sagði að stjórnvöld gætu látið loka slíkri skrifstofu þar sem alþjóðastofnanir og erlend ríki héldu ekki úti þess háttar starfsemi nema með velþóknun móttökuríkisins. Þegar Evrópustofa var á teikniborðinu haustið 2011 þóttist Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra ekkert kannast við að ráðuneyti sitt hefði lagt blessun sína yfir hana. Þá var bent á að stækkunardeild ESB hefði aldrei staðið að því að opna Evrópustofu án vilja og vitundar utanríkisráðuneytisins. Taldi Össur þessa skoðun ekki eiga við nein rök að styðjast.

Á vefsíðunni ruv.is segir í dag:

„Evrópustofa er fjármögnuð af ESB og veitir upplýsingar um starfsemi þess. Slíkar skrifstofur eru starfræktar í 130 löndum. Í svari utanríkisráðuneytisins segir að Evrópustofa starfi á grundvelli Vínarsamnings frá 1961 um starfsemi sendiráða. Ráðuneytið telur að kynningarstarf ESB hérlendis sé eðlilegur hluti af starfsemi sendiskrifstofunnar.“

Þetta eru alrangar upplýsingar frá utanríkisráðuneytinu. Þýska fyrirtækið Media Consulta (MC) með höfuðstöðvar í Berlín rekur Evrópustofu og er almannatengslafyrirtækið Athygli undirverktaki hér á landi. Stækkunardeild ESB samdi árið 2011 við  MC til tveggja ára og ESB greiðir alls 1,4 milljónir evra fyrir verkefnið.

Hvers vegna kjósa fræðimaður og utanríkisráðuneytið að fara með fleipur þegar málefni Evrópustofu ber á góma?