Sunnudagur 24. 02. 13
Mikill sóknarhugur einkenndi 41. landsfund okkar sjálfstæðismanna, hann birtist skýrt í ályktunum og kjöri trúnaðarmanna. Bjarni Benediktsson fékk bestu formannskosningu sína til þessa, tæplega 79% fylgi og Hanna Birna hlaut 95% stuðning í embætti varaformanns. Glæsileg kosning fyrir þau bæði.
Málefnaleg samstaða einkenndi einnig fundinn. Samstaða náðist um öll meginmál og þar sem menn ákváðu að bera ágreining undir atkvæði fundarmanna varð niðurstaðan einnig afdráttarlaus eins og í ESB-málinu. Þar var ákveðið að hætta við aðildarviðræðurnar.
Á Eyjunni birtist samtal laugardaginn 23. febrúar við Svein Andra Sveinsson hrl. um að niðurstaða landsfundarins um ESB-mál mundi leiða til heimasetu hans á kjördag. Hann gæti ekki lagt Sjálfstæðisflokknum lið. Sveinn Andri tók hins vegar þátt í störfum landsfundarins sunnudaginn 24. febrúar án þess að gera minnstu tilraun til að breyta ályktunum fundarins um ESB-mál, gafst þó tækifæri til þess þegar stjórnmálaályktun fundarins kom til afgreiðslu. Annaðhvort var samtalið á Eyjunni tilbúningur ritstjórnar hennar eða ekkert er að marka Svein Andra þegar hann hallmælir Sjálfstæðisflokknum vegna ESB-afstöðu landsfundarins.
Löngum hefur verið umhugsunarefni hvað í ályktunum landsfunda sjálfstæðismanna vekur athygli fjölmiðlamanna. Nú hafa fréttir snúist um eina setningu sem virðist hafa farið inn í ályktun fyrir misskilning um kristin gildi og lagasetningu. Hún var dregin til baka. Hvergi hefur hins vegar verið minnst á þessa setningu í lok ályktunar um utanríkismál:
„Landsfundur áréttar að full ástæða sé til að Íslendingar kanni grundvöll þess að sækja rétt sinn gagnvart Bretum vegna beitingar hryðjuverkalaganna haustið 2008 sem verulega skaðaði íslenska hagsmuni.“
Er þetta ekki fréttnæmt? Eða þetta.
„Landsfundur Sjálfstæðisflokksins fagnar því að ekki var ritað undir nauðasamninga við þrotabú föllnu bankanna síðastliðið haust.
Það er nauðsynlegt að forræði nauðasamninga sé á hendi Alþingis, ríkisstjórnar og sérfræðinga á þeirra vegum, en ekki hjá Seðlabanka Íslands. Það samrýmist ekki starfsemi seðlabanka að standa í nauðasamningum. Gæta þarf hagsmuna þjóðarinnar og ná fram ítrustu kröfum í þeim efnum.
Forréttindi erlendra kröfuhafa, með undanþágum frá gjaldeyrislögum sem veittar voru þrotabúum föllnu bankanna, þar með talið þrotabúi Landsbanka Íslands og kröfuhöfum fyrirtækja í eigu sveitarfélaga, þarf að afnema. Slík forréttindi eru á kostnað almennings á Íslandi.“