Föstudagur 01. 02. 13
Niðurstöður í könnunum á fylgi flokka birtust á óheppilegasta tíma í dag fyrir Jóhönnu Sigurðardóttur, fráfarandi formann Samfylkingarinnar, sem gortaði sig af góðum árangri ríkisstjórnarinnar og Samfylkingarinnar undir sinni stjórn undanfarin fjögur og hélt áfram reiðilestri um sjálfstæðismenn. Má segja að hún sé trú þeim óvildarmálstað fram á síðustu stundu. Það skilar henni hins vegar ekki miklu fylgi.
Sá sem tekur við formennsku í Samfylkingunni af Jóhönnu er ekki öfundsverður hvort heldur litið er til málefnastöðu flokksins eða vinsælda hann meðal kjósenda. Ef til vill er Jóhanna kjósendafæla flokksins og þeir kunna að laðast aftur að Samfylkingunni þegar hún hverfur úr formennskunni. Það kemur í ljós. Hitt er víst að þingflokkur Samfylkingarinnar hefur látið Jóhönnu leiða sig í ógöngur í Icesave-málinu og nú síðast í stjórnarskrármálinu.
Icesave-málið er úr sögunni . Stjórnarskrármálið er hins vegar enn til umræðu á alþingi. Nýr formaður Samfylkingarinnar mundi örugglega bæta stöðu flokksins ef hann viðurkenndi tafarlaust að óskynsamlegt sé að halda áfram á stjórnarskrárbraut Jóhönnu.