17.2.2013

Vefsíðan bjorn.is í 18 ár

Um þessar mundir eru 18 ár síðan ég setti fyrst efni hér inn á síðuna eins og sannast á þessari færslu . Hér er að finna heimildir um það sem vakið hefur áhuga minn í áranna rás, ræður og greinar, auk hugleiðinga um menn og málefni. Miklar breytingar hafa orðið á þessum 18 árum. Mestu tíðindin á stjórnmálavettvangi urðu við hrun fjármálakerfisins  haustið 2008. Hrunið varð til þess að Sjálfstæðisflokkurinn glataði 1. febrúar 2009 stjórnarforystunni sem hann haft frá vori 1991.

Ósannindi andstæðinga Sjálfstæðisflokksins um það sem gerðist á þessum 18 árum undir forystu sjálfstæðismanna eru með ólíkindum. Hlutverk stjórnmálamanna líðandi stundar er ekki að halda uppi vörnum fyrir störf forvera sinna. Þeir eiga að takast á við viðfangsefni líðandi stundar og horfa til framtíðar.  Um leið og tekið er undir það sjónarmið er hitt staðreynd að traustar rætur stjórnmálaflokka, farsæl grundvallarstefna, virðing fyrir því sem vel er gert og hiklaus trúnaður við árangursrík störf fyrri ára er heilladrjúgt veganesti á líðandi stundu auk þess sem þeim farnast aldrei vel í stjórnmálum sem neita að læra af sögu og reynslu forvera sinna.

Ég hef hiklaust látið allt standa á sínum stað hér á síðu minni í 18 ár eins og það var skráð. Sé mér bent á ritvillur eða að rangt sé farið með staðreyndir breyti ég því til betri vegar. Á sex árum, 2002 til 2008, voru skrif mín undir smásjá þeirra sem héldu uppi vörnum fyrir Baugsmenn og tóku saman við Samfylkinguna í því skyni að koma Sjálfstæðisflokknum frá völdum. Látið var á það reyna oftar en einu sinni fyrir dómstólum hvort eitthvað af því sem ég hafði skrifað væri þess eðlis að dygði Baugsmönnum til að sakamálið á hendur þeim yrði að engu. Sú aðför að frelsi mínu til að lýsa skoðun minni hér á síðunni mistókst. Ég hef sagt þessa sögu í heild í bók minni Rosabaugur yfir Íslandi. Þar varð mér á segja Jón Ásgeir Jóhannesson dæmdan fyrir fjárdrátt í stað meiri háttar bókhaldsbrots, ritvillan varð tilefni meiðyrðamáls sem lauk í hæstarétti þar sem héraðsdómi um að ég skyldi greiða Jóni Ásgeiri bætur auk málskostnaðar var snúið mér í vil. Jón Ásgeir tapaði máli sem höfðað var að tilefnislausu.

Bókina Rosabaug ritaði ég til að afsanna þá kenningu að vegna skorts á eftirliti hafi bankar hrunið hér á landi. Í Baugsmálinu var markvisst unnið að því að grafa undan eftirlitsstofnunum og fæla þær frá að snerta við Baugsmönnum og öðrum. Árásir á vefsíðu mína á sínum tíma og málsóknin gegn mér var angi af hinu sama. Það átti að fæla menn frá að segja frá öllum hliðum mála er varða Baugsmenn og þó sérstaklega Jón Ásgeir Jóhannesson sem situr enn og stjórnar fjölmiðlaveldi sínu á bakvið tjöldin eins og sannaðist þegar fyrirmæli af æðstu stöðum komu um að fyrirsögn á fréttinni um dóm hæstaréttar mér í vil var birtur undir fyrirsögn á vefsíðunni visir.is um að ég hefði verið dæmdur sekur í hæstarétti.

Þjóðfélagsmyndin sem birtist við lestur Rosabaugs er ekki geðfelld. Þar er ekki við stjórnvöld að sakast heldur þá sem lögðust á eitt til að gera hlut þeirra sem enn sitja á bekk sakamanna fyrir dómstólum vegna fjármálaumsvifa sem bestan. Hlutur Samfylkingarinnar í því efni verður aldrei ofmetin frekar en þeirra sem lögðu Baugsmönnum lið á vettvangi fjölmiðlanna og láta enn að sér kveða og telja sig best hæfa til að kasta rýrð á Sjálfstæðisflokkinn og störf  í nafni hans.

Uppgjörinu vegna þessa er ekki lokið. Sjálfstæðisflokkurinn hefur þolað þessu liði of lengi að rægja flokkinn og forystumenn hans. Flokkurinn bognaði undan álaginu en brotnaði sem betur fer ekki. Þótt stjórnmálastörf líðandi stundar snúist ekki um fortíðina er Sjálfstæðisflokknum nauðsynlegt að hrekja betur en gert hefur verið hve ómaklega hefur verið vegið að málstað hans og forystumönnum hans.

Hin misheppnaða aðför að Geir H. Haarde fyrir landsdómi varð enn til að styrkja málstað Sjálfstæðisflokksins. Þar reiddu andstæðingar hans hærra til höggs á alþingi en áður hafði verið gert gagnvart pólitískum andstæðingi. Ágreiningi um stjórnmál var breytt í sakamál og landsdómur kom í fyrsta sinn saman. Geir var sýknaður af öllum efnislegum atriðum en sakfelldur af meirihluta dómsins fyrir að ekki hefði verið fært til bókar á fundum ríkisstjórnarinnar að rætt hefði verið um hættuna innan bankakerfisins í aðdraganda hruns þess.

Hér var um lítilmannlega aðför að ræða. Hún er þeim til skammar og háðungar sem að henni stóðu. Framganga þeirra sjálfra við stjórn landsins frá 1. febrúar 2009 verður lögð undir dóm kjósenda 27. apríl nk. Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra lætur af þátttöku í stjórnmálum vegna aldurs. Hinn forystumaður ríkisstjórnarinnar, Steingrímur J. Sigfússon, segir af sér formennsku í flokknum sem hann stofnaði, vinstri-grænum (VG), í von um að með því bjargi hann lífi flokksins.  Alþjóðleg fjármálakreppa varð til þess að sjálfstæðismenn misstu stjórnarforystu eftir 18 ár, rúmlega fjögurra ára stjórnarseta og sjálfshól um eigin árangur varð til þess að Steingrímur J. sá sér fyrir bestu að hverfa frá forystu í eigin flokki.

Öll þessi saga er sögð hér á síðunum sem ég hef haldið úti í 18 ár. Ég hef ekki legið á skoðun minni á mönnum og málefnum. Af þessum 18 árum eru hin fjögur síðustu hin verstu í stjórnmálasögunni,  hvort sem notaður er minn mælikvarði eða hlutlægur kvarði. Ríkisstjórninni hefur gjörsamlega misheppnast að ná því fram sem að var stefnt. Hvergi hefur verið tekið á málum þannig að fast land sé undir fótum. Neyðarlögin sem sett voru í tíð Geirs H. Haarde haustið 2008 eru undirstaðan sem ekki hefur bifast.

Stjórnarhættir hafa stórversnað frá 1. febrúar 2009 með breytingum á lögum um Seðlabanka Íslands og Stjórnarráð Íslands. Með skattahækkunum hefur verið vegið að hag almennings og fyrirtækja og áhrifin eru lamandi alls staðar í þjóðlífinu. Ofstjórn ríkir í krafti gjaldeyrishafta. Stjórnarskrármál eru í uppnámi eins og samskiptin við Evrópusambandið. Loforð um skjaldborg um heimilin hafa verið svikin, heilbrigðiskerfið er í uppnámi, fiskveiðistjórn er í óvissu.  Meðferð Icesave-málsins á ábyrgð Steingríms J. Sigfússonar verður um ókomin ár skólabókardæmi um skammarlega varðstöðu um málefni þjóðarinnar út á við.

Ég þakka þeim fjölmörgu sem hafa fylgst með síðunni áranna rás og þeim sem hafa veitt mér tæknilega aðstoð við að halda henni úti en síðasta áratug hefur hún verið vistuð hjá Hugsmiðjunni.