Miðvikudagur 27. 02. 13
Í dag ræddi ég við Hannes Hólmstein Gissurarson prófessor í þætti mínum á ÍNN og fjölluðum við um stjórnmálaástandið og nýlegan afmælisfyrirlestur sem Hannes flutti í þéttsetnum hátíðasal Háskóla Íslands. Þáttinn má sjá næst á miðnætti og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun.
Eftir viðtalið við Ögmund Jónasson innanríkisráðherra í Kastljósi er ég engu nær um hvað hann vill í raun gera til að bæta starfsumhverfi lögreglunnar við gjörbreyttar aðstæður. Þá er ég eins og fleiri undrandi yfir hinum gífurlega vexti sem hlaupið hefur í hleranir lögreglu undanfarin ár.
Nú sýnist staðan hafa breyst frá því á þeim tíma þegar ég var dómsmálaráðherra. Þá stóðu þingmenn, einkum samfylkingarmenn, gegn tillögum mínum um auknar forvirkar heimildir fyrir lögreglu. Nú vill Ögmundur ráðherra ekki koma til móts við vilja þingsins í þessu efni. Skapast hefur ágreiningur milli Ögmundar og þingmanna sem leiðir til þess að mál stranda í þinginu.
Ögmundur lætur eins og ekki sé þörf á öðru en að ræða málið. Það hefur verið gert í mörg ár á bakvið þetta tal er ekki annað en andstaða við að stíga þau skref sem tryggja að lögregla hér standi jafnfætis lögreglu annars staðar.
Við upphaf stjórnarsamstarfsins var látið eins og ætlunin væri að skapa hér á landi sérstakt skjól fyrir þá sem halda úti samskiptum og miðlun í netheimum. Hér yrði unnt að starfa í vernduðu umhverfi. Birgitta Jónsdóttir alþingismaður sem heldur lífi í ríkisstjórninni vann að því með Julian Assange og félögum að semja tillögu til þingsályktunar sem var samþykkt og vakti athygli víða. Nú undir lok kjörtímabilsins dregst athygli að Ögmundi og samstarfsfólki hans vegna tillagna um að grípa til aðgerða í netheimum gegn klámi, aðgerðum sem ganga þvert á það sem Birgitta og Assange vildu.