Þriðjudagur 12. 02. 13
Fráleitt er að unnt sé að skauta fram hjá áliti Feneyjanefndarinnar við frekari meðferð á frumvarpi stjórnarflokkanna að nýrri stjórnarskrá. Nauðsynlegt er að rýna nákvæmilega í það og skoða þær ábendingar sem þar koma fram. Þær bera allar með sér að sú gagnrýni á við full rök að styðjast að stjórnarskrárfrumvarpið er hálfkarað. Þá telur nefndin einnig í raun fráleitt að afgreiðsla stjórnarskrár sé knúin fram í þeirri ósátt sem ríkir um tillögur stjórnlagaráðs. Óhjákvæmilegt er að þetta mál verði lagt til hliðar og skoðað að nýju frá grunni.
Frásagnir af samskiptum íslenskra yfirvalda við FBI vegna gruns um netarásás á íslenska stjórnarráðið bera með sér að Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hefur hlutast til um málefni á verksviði lögreglu og ákæruvalds á flokkspólitískum grunni. Á visir.is er í dag sagt frá komu Ögmundar á fund allsherjar- og menntamálanefndar þingsins. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sat fundinn. Hún segir á visir.is að Ögmundi hafi greinilega orðið á mistök í þessu máli sem beri keim taugaveiklunar og „kanafóbíu“. Ögmundur hafi vegið „alvarlega að sjálfstæði ákæruvaldsins“. „Fundurinn kallar í raun á fleiri spurningar en hann svaraði," sagði Þorgerður Katrín að lokum.
Að svo sé kemur ekki á óvart. Þegar Ögmundur Jónasson lendir í vandræðum vegna embættisfærslu sinnar veður hann úr einu í annað í því skyni að dreifa athygli frá kjarna málsins. Tvennt er ljóst: Ögmundur hikar ekki við að beita pólitísku valdi gagnvart embættismönnum í því skyni að laga stöðu mála að flokkspólitískum hagsmunum sínum. Ögmundur er haldinn „kanafóbíu“ á hástigi eins og sannaðist nýlega með ræðu hans gegn Ísrael við bandaríska sendiráðið á Laufásvegi. Enginn þarf að fara í grafgötur um að Ögmundur telur sér það pólitískt til framdráttar að vekja tortryggni í garð FBI, bandarísku alríkislögreglunnar. Hið sama má raunar segja um undileikara hans í þessu máli Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra.