Laugardagur 16. 02. 13
Þegar sagt var frá ákvörðun Steingríms J. Sigfússonar um að láta af formennsku í VG í sjónvarpsfréttum ríkisins var meðal annars birtur bútur úr ræðu hans á alþingi þar sem hann kallaði Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, gungu og druslu. Samhliða þessum skömmum hefði fréttastofan átt að sýna myndbrotið af því þegar Steingrímur J. öskraði „Étt‘ann sjálfur!“ og lagði síðan hendur á Geir H. Haarde, þáv. forsætisráðherra, þar sem hann sat við hlið forsetastólsins. Einnig hefði mátt birta samtalsbrotið eftir að samþykkt var að draga Geir H. Haarde fyrir landsdóm og Steingrímur J. sagðist hafa greitt atkvæði með því með „sorg í hjarta“.
Ég skrifaði um afsögn Steingríms J. á Evrópuvaktina eins og lesa má hér. Þegar litið er á efni málsins kemur ákvörðunin ekki á óvart. Steingrímur J. hefur leitt VG í öngstræti vegna alls sem hann hefur fórnað fyrir ráðherrastólinn. Verst hefur hann leikið flokkinn og trúverðugleika hans með stuðningi við ESB-aðildarumsóknina. Að fórna flokki og stjórnmálaframa fyrir þann málstað sýnir mikla valdafíkn.
Nú má sjá viðtal mitt við Arnar Þór Jónsson, sérfræðing við lagadeild Háskólans í Reykjavík, á ÍNN hér á netinu.
Þess er minnst í Morgunblaðinu í dag að brátt eru 10 ár liðin frá því að hús Orkuveitu Reykjavíkur var tekið í notkun. Frásögn blaðsins er ágæt svo langt sem hún nær. Því fer hins vegar víðs fjarri að hún segi alla söguna.
Ég sat í borgarstjórn á þessum árum og hér á síðunni má finna frásagnir af viðleitni minni við að fá upplýstan kostnað við smíði hússins. Ég taldi þá að ráðamenn innan OR færu með rangt mál þegar þeir nefndu tölur um byggingarkostnað. Það hefur reynst rétt. Blekkingarnar voru miklar, raunar meiri en mig grunaði þá.
Sala hússins nú til að OR geti leigt það aftur er leikflétta sem léttir ekki byrðar af okkur viðskiptavinum OR vegna hússins.
Á þessum árum gagnrýndi ég einnig erlenda lántöku OR og var svarað með fullyrðingum um að OR hefði þann styrk að sjálfsagt og eðlilegt væri fyrir fyrirtækið að nýta tækifæri til lántöku í útlöndum. Allir sjá nú að menn reistu sér þar hurðarás um öxl. OR er nú fast í greipum erlendra lánveitenda og viðskiptavinir með skuldirnar á herðum sér.