31.1.2009 22:08

Laugardagur, 31. 01. 09.

Framsóknarflokkurinn gaf grænt ljós á rauðgræna minnihlutastjórn rúmlega 18.00 í dag - hann segist ætla að verja hana vantrausti en ekki lofa framgangi einstakra lagafrumvarpa. Ég fjalla um stjórnarslit og stjórnarmyndun í pistli á vefsíðu minni í dag.

Bjarni Benediktsson lýsti yfir framboði til formennsku í Sjálfstæðisflokknum í samtali við sjónvarpið í kvöld. Skrýtið er að sjá Egil Helgason segja á vefsíðu sinni, að Bjarni vilji Ísland í Evrópusambandið. Þetta stenst ekki. Bjarni hefur hins vegar oft vakið máls á því, að finna þurfi niðurstöðu í Evrópumálum, þar sem tekið sé af skarið á þann veg, að þau þvælist ekki fyrir úrlausn annarra brýnni mála. Það er verkefni væntanlegs landsfundar að leiða málið til lykta innan Sjálfstæðisflokksins.

Fyrir Evrópufíkla eins og Egil nægir að heyra orðið aðildarviðræður til að þeir haldi, að aðild sé á dagskrá. Þetta sannaðist best við túlkunina á samþykkt flokksþings framsóknarmanna. Kiolbrún Bergþórsdóttir ræðir við Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann Framsóknarflokksins, í Morgunblaðinu í dag og spyr, hvort hann sé hlynntur aðild Íslands að Evrópusambandinu. Hann svarar:

»Evrópusambandið hefur verið notað sem afsökun fyrir aðgerðaleysi ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar gagnvart stöðu fyrirtækjanna og heimilanna í landinu. Viss hluti ríkisstjórnarinnar hefur sagt að allt yrði gott ef við gengjum í Evrópusambandið. En heimilin og fyrirtækin geta ekki beðið eftir framtíðarinngöngu í Evrópusambandið. Það þýðir ekkert að ætla að ganga til samninga við Evrópusambandið þegar 70 prósent fyrirtækja í landinu eru rjúkandi rúst og heimilin geta ekki lengur borgað af skuldum sínum. Jafnvel þeir sem vilja ganga sem allra fyrst inn í Evrópusambandið hljóta að vera sammála um að við verðum að byrja á því að taka til hér heima áður en við getum gengið til viðræðna við Evrópusambandið. Svo verður að sjá hvað út úr því kemur.«

Sigmundur Davíð telur annað brýnna núna en deilur um Evrópusambandið. Egill Helgason nefndi ESB-málið „red herring“ eða óþarfa truflun í samtali við mig í Silfri Egils á dögunum. Stundum dettur manni í hug orðið þráhyggja, þegar leitast er við að skýra allt á þann veg, að hljóti að kalla á aðild að Evrópusambandinu eða allt og alla beri að vega og meta með ESB sem kvarða.

ps. Egill bregst við þessari færslu minni hér.