27.1.2009 21:19

Þriðjudagur, 27. 01. 09.

Þorsteinn Pálsson, ritstjóri Fréttablaðsins, hefur verið háværasti hvatamaður þess af kunnum sjálfstæðismönnum, að nú ætti að sækja um aðild að Evrópusambandinu (ESB). Hann viðurkennir í leiðara í blaðinu í dag, að hafa orðið undir í umræðunum. Hann ræðir um stjórnarslitin og segir:

Mesta athygli vekur að krafa Samfylkingarinnar um aðild að Evrópusambandinu er ekki röksemd fyrir stjórnarslitunum. Ástæðan er sú að þeir sem keyrðu þau fram innan flokksins eru tilbúnir að skjóta stærsta máli flokksins, og hans einu sérstöðu, á frest til þess að ná samstarfi til vinstri.

Þessi upplausn þýðir væntanlega að aðildarumsókn kemst ekki með afgerandi hætti á pólitíska dagskrá eins og sakir standa?. Stuðningur meðal þjóðarinnar við aðild hefur einnig dalað mjög afgerandi.“

Ritstjórar Fréttablaðsins og Morgunblaðsins ákváðu að beita blöðum sínum í þágu aðildarsinna og elta Samfylkinguna í Evrópumálum, þegar hún hótaði Sjálfstæðisflokknum. Afleiðingin er sú, sem Þorsteinn Pálsson lýsir, stuðningur meðal þjóðarinnar við þennan málstað hefur „dalað mjög afgerandi.“

Skýringin er einföld: Það var engin innistæða fyrir þeirri fullyrðingu, að unnt yrði að leysa efnahagsvanda Íslendinga með því að senda þá sem beiningamenn inn í Evrópusambandið og knýja þá til að láta af stjórn auðlinda sinna. Í ljósi þessa er jafnnauðsynlegt að vara allan almenning og ritstjóra blaðanna við að trúa öðrum fullyrðingum forystu Samfylkingarinnar um að hún þekki leið þjóðarinnar út úr vandanum.

Viðvaranir af þessu tagi eru þeim mun brýnni vegna þess hvernig þeir, sem hafa verið gagnrýnastir á hið pólitíska vald, eru mun mildari í orðum nú en áður. Reynslan hefur kennt, að það er til dæmis ekki aðferðin, sem beitt er við að velja fólk í embætti, sem ræður, hvort niðurstaðan sætir gagnrýni, heldur hver velur hvern. Nú kemur í ljós, að gagnrýni á hið pólitíska vald og stjórnkerfið beinist ekki að því heldur þeim, sem trúað er fyrir því að fara með það. Allt tal um „nýtt lýðveldi“ mun snarþagna innan tíðar eins og sleifarnar á pottlokunum, eftir að vinstri græn gengu inn til Bessastaðabóndans.