13.1.2009 15:36

Þriðjudagur, 13. 01. 09.

Í morgun var ég í þættinum Ísland í bítið á Bylgjunni og ræddi við þau Heimi Karlsson og Kolbrúnu Björnsdóttur um bók mína Hvað er Íslandi fyrir bestu? Útskrift af samtali okkar birtist hér.

Klukkan 15.00 komu fulltrúar þingflokka í allsherjarnefnd alþingis til fundar í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu. Kynnti ég þeim, að Ólafur Þór Hauksson, sýslumaður á Akranesi, hefði sótt um embætti sérstaks saksóknara vegna bankahrunsins. Teldi ég einsýnt, að hann væri hæfur til að gegna embættinu og voru þingmenn sammála þeirri skoðun. Um klukkan 16.00 var gefin út fréttatilkynning um skipun Ólafs.

Flaug klukkan 18.00 til Egilsstaða og ók þaðan til Reyðarfjarðar, þar sem ég flutti ræðu á fundi sjálfstæðismanna í hótelinu klukkan 20.00 með Arnbjörgu Sveinsdóttur, alþingismanni.

Fundarmenn tóku virkan þátt í fundinum með fjölda spurninga bæði um bankahrunið og Evrópumál - var það samdóma álit þeirra og mitt, að annað væri brýnna núna en að deila um aðild að Evrópusambandinu og best væri, að hafna henni á afdráttarlausan hátt.