26.1.2009 8:30

Mánudagur, 26. 01. 09.

Sögulegur dagur er að kvöldi kominn. Klukkan 10.00 kom þingflokkur sjálfstæðismanna saman í þinghúsinu. Geir H. Haarde gerði okkur grein fyrir viðræðum við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur sunnudaginn 25. janúar, þar sem endapunkturinn hefði orðið sá, að Samfylkingin vildi fá „verkstjórn“ í ríkisstjórn, það er forsætisráðherraembættið.

Þetta var lokaskilyrði Samfylkingar fyrir framhaldi á stjórnarsamvinnu við Sjálfstæðisflokkinn og gekk Geir svo langt gagnvart ósk Ingibjargar, að hann lagði til, að þau vikju bæði úr stjórninni og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir yrði starfandi forsætisráðherra. Þetta vildi Ingibjörg Sólrún ekki samþykkja.

Þingflokkur sjálfstæðismanna var þeirrar skoðunar, að héldi Samfylking fast í kröfuna um nýjan „verkstjóra“ yrði hún að sitja uppi með þá kröfu án samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn. Jafnframt var samþykkt umboð til Geirs um að ganga til samstarfs um þjóðstjórn.

Við lukum fundi okkar í þann mund, sem Ingibjörg Sólrún kom út af þingflokksfundi Samfylkingarinnar, sem haldinn var í flokksherbergi þeirra, en Ingibjörg Sólrún komst ekki til fundar við Geir til að skýra honum frá niðurstöðum í sínum flokki, án þess að ganga fram hjá fréttamönnum á anddyri skálans.

Fréttamenn beindu hljóðnemum að Ingibjörgu Sólrúnu og fylgdist þingflokkur okkar með samtalinu í beinni útsendingu. Það hófst á því, að Ingibjörg Sólrún sagðist ekki vilja segja neitt, enda ætlaði hún fyrst að segja Geir frá niðurstöðunni - síðan hélt samtalið áfram stig af stigi og hún sagði frá öllu sem máli skipti í fjölmiðlum, áður en hún hitti Geir. Við í þingflokknum vissum þá, að fundur þeirra yrði stuttur, því að Ingibjörg endurtók kröfuna um að Samfylkingin fengi verkstjórann, án þess þó að geta hver hann yrði.

Við biðum í þingflokksherberginu, þar til Geir kom af fundinum með Ingibjörgu og sagði okkur, að hann hefði slitið samstarfinu vegna kröfunnar um, að hann viki. Síðan hlustuðum við á Geir ræða við fréttamenn, þar sem hann sagði meðal annars, að ekki væri unnt að eiga samstarf við Samfylkinguna, enda væri hún „flokkur í tætlum“. Eftir það fórum við og fengum okkur fiskibollur í mötuneyti þingsins.

Þingfundur hófst klukkan 15.00 og þar skýrði Geir frá stjónarslitunum og talsmenn annarra flokka fluttu stuttar ræður. Geir sagði í upphafi ávarps síns:

„Rétt er að gera þingheimi grein fyrir því að ekki er um málefnalegan ágreining að ræða milli flokkanna heldur hefur krafa Samfylkingarinnar um að taka við forsætisráðuneytinu valdið trúnaðarbresti sem ekki er yfirstíganlegur. Öllum má vera ljóst að krafa um að stjórnarforustan flytjist á milli flokka í ríkisstjórn getur ekki leitt til annars en stjórnarslita.

Ég vil þakka hæstv. utanríkisráðherra, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, persónulega fyrir það samstarf sem við höfum átt sem formenn stjórnarflokkanna. Þar hefur engan skugga borið á.“

Í ræðu sinni sagði Ingibjörg Sólrún:

„Eins og forsætisráðherra sagði réttilega hefur þessu ríkisstjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar verið slitið og forseta verður væntanlega gerð grein fyrir því síðar í dag. Forsætisráðherra sagði að ástæðan fyrir því væri ekki málefnaleg ástæða heldur sú að Samfylkingin gerði kröfu um forustu í ríkisstjórninni. Ég tel að þetta sé ekki alveg réttilega með farið af hálfu forsætisráðherra. Við viljum síst af öllu lasta hann og hans orð. Það var samt ekki rétt með farið.

Ástæðan fyrir því að þetta stjórnarsamstarf gengur ekki lengur er sú að það er mjög mikilvægt við þær aðstæður sem uppi eru í samfélaginu núna að það sé í fyrsta lagi öflug verkstjórn, það sé öflug aðgerðaáætlun og að það sé traust og trúverðugleiki á ríkisstjórninni....

Við þær aðstæður sem núna eru m.a. vegna minna eigin veikinda og forsætisráðherra tel ég að eðlilegt væri að við tvö mundum stíga til hliðar, taka okkur leyfi í einn mánuð eða tvo. Ég tel að sá þingmaður sem hefur hvað mesta reynslu, mestan trúverðugleika og er hvað óumdeildastur meðal þjóðarinnar, þ.e. Jóhanna Sigurðardóttir, ætti við þessar aðstæður að leiða ríkisstjórnina. Það er mín tillaga að svo verði og það var mín tillaga til forsætisráðherra að þannig yrði málum háttað fram að kosningum. Síðan getur þjóðin ákveður það hvernig hún vill haga hlutunum eftir kosningar. Hér er öflugur, reyndur þingmaður og ráðherra sem gæti leitt þessa ríkisstjórn fram að kosningum til að vinna ákveðin tiltekin verk.“

Í þessum orðum Ingibjargar Sólrúnar kemur skýrt fram, að hún krefst þess, að Sjálfstæðisflokkurinn gefi eftir stjórnarforystu til að Jóhanna Sigurðardóttir geti leitt ríkisstjórnina! Jóhanna upplýsti í fjölmiðlum, að þetta hefði verið rætt við sig þá um morguninn, en daginn áður lá í loftinu, að Samfylkingin væri með konu utan alþingis með í huga, einhverja vinkonu Ingibjargar Sólrúnar. Hitt er síðan athyglisvert, að hvergi víkur Ingibjörg Sólrún þakklætisorði til Geirs fyrir samstarf þeirra.

Geir hélt til Bessastaða klukkan 16.00 og lagði fram lausnarbeiðni fyrir sig og ráðuneyti sitt. Um klukkan 17.00 fór Geir frá Bessastöðum og Ólafur Ragnar Grímsson efndi til blaðamannafundar, þar sem hann kaus að nefna fjögur áhersluatriði, sem hann ætlaði að setja stjórnmálamönnum fyrir við myndun ríkisstjórnar. Það á sér enga hliðstæðu, að forseti Íslands gangi á svig við hlutleysi sitt og óhlutdrægni á þennan hátt og reyni að knýja fram einkasjónarmið sín við stjórnarmyndun. Þá lét Ólafur Ragnar einnig orð falla á þann veg, að forsætisráðherra í starfsstjórn, það er stjórn, sem starfaði þar til ný stjórn í umboði alþingis kæmi saman, gæti ekki gert tillögu um þingrof. Þessi yfirlýsing forseta stenst ekki gagnrýni og gengur þvert á umboð ráðherra í starfsstjórn, sem er hið sama og endranær, þótt þess sé ekki að vænta, að þeir leggi á ráðin um framtíðarstefnu, sem byggist á pólitísku samkomulagi.

Á vefsíðunni www.amx.is var haft á orði eftir blaðamannafund Ólafs Ragnars, að frá Bessastöðum kæmi nú stjórnlagakreppa ofan á stjórnarkreppu og bankakreppu.

Á þessari stundu láta samfylkingarmenn eins og þeir geti auðveldlega myndað minnihlutastjórn með vinstri/grænum og þeir eigi stuðning framsóknarmanna vísan til að fá sitt í gegn á alþingi. Meira að segja eru einhverjir samfylkingarmenn teknir til við að hvísla því að fréttamönnum, að v/g muni auðveldlega koma til móts við Samfylkinguna í Evrópumálum og breyta stjórnarskránni fyrir kosningar til að greiða fyrir ESB-aðild.

 Líklegt er, að þetta sé komið frá Árna Páli Árnasyni, þingmanni Samfylkingarinnar, sem harðast hefur veist að Sjálfstæðisflokknum í dag og líkt honum við skæruliðaflokk. Árni Páll sér Evrópusambandsaðild sem lausn alls vanda og telur víst, að hann verði utanríkisráðherra í stjórn með v/g vegna veikinda Ingibjargar Sólrúnar og það komi hans hlut að hnýta Evrópuhnútana. Í dag var birt skoðanakönnun í Fréttablaðinu, sem sýndi, að tæp 60% þjóðarinnar vill ekki aðild að Evrópusambandinu, þrátt fyrir linnulausan áróður Árna Páls og félaga undanfarið. Í október 2008 voru 70% þeirrar skoðunar, að Ísland ætti að fara í sambandið.