3.1.2009

Stjórnarsamstarf við upphaf 1956 og 2009

Deilur um varnarsamninginn voru miklar á stjórnmálavettvangi allt frá því að hann var gerður árið 1951 fram til 1974, þegar 55.522 Íslendingar rituðu undir áskorun Varins lands samningnum og dvöl varnarliðsins til stuðnings.

Tvisvar á þessu tímabili, 1956 og 1971, voru myndaðar vinstri stjórnir, það er með þátttöku Alþýðubandalags og Framsóknarflokks og Alþýðuflokks 1956 en Alþýðubandalags og Framsóknarflokks og Samtökum frjálslyndra og vinstri manna 1971. Báðar höfðu stjórnirnar á stefnuskrá sinni að varnarliðið hyrfi úr landi. Framsóknarflokkurinn átti í bæði skiptin forsætisráðherra í þessum vinstri stjórnum, Hermann Jónasson í hinni fyrri og Ólaf Jóhannesson í þeirri síðari.

Aðdragandi stjórnamyndunarinnar 1956 snerist að verulegu leyti um varnarmálin. Þegar þing kom saman haustið 1955 fluttu fimm þingmenn Alþýðuflokksins tillögu til þingsályktunar um varnarsamninginn. Vildu flutningsmenn með vísan til breyttra aðstæðna, frá því að samningurinn var gerður, að þá þegar yrði hafinn undirbúningur á að breyta framkvæmd hans, þannig að hægt yrði að láta bandaríska varnarliðið hverfa úr landi með stuttum fyrirvara.

Tillögunni var vísað til utanríkismálanefndar og kom ekki til meðferðar aftur fyrr en í lok þings, eða seint í mars 1956. Á þessu þingi sat ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, sem mynduð var undir forsæti Ólafs Thors í september 1953. Versnaði stjórnarsamstarfið stig af stigi þennan vetur og var talið líklegt, að upp úr því slitnaði og efnt yrði til kosninga, áður en kjörtímabilið rynni sitt skeið. Stjórnarflokkana greindi meðal annars á um tillögu Alþýðuflokksins um varnarmálin.

Fór svo, að þingmenn Alþýðuflokks og Framsóknarflokks tóku höndum saman um afgreiðslu tillögu Alþýðuflokksins úr utanríkismálanefnd með breyttu orðalagi á henni og flutti fyrsti minnihluti nefndarinnar, Jörundur Brynjólfsson og Hermann Jónasson úr Framsóknarflokki, og Gylfi Þ. Gíslason úr Alþýðuflokki tillöguna í hinni nýju gerð. Var hún borin undir atkvæði hinn 28. mars 1956 og samþykkt af þingmönnum Alþýðuflokks, Framsóknarflokks, Sósíalistaflokks og Þjóðvarnarflokks.

Alþýðubandalagið var stofnað 4. apríl 1956 sem kosningasamtök „allra þeirra vinstri manna, sem saman vilja standa um stefnuyfirlýsingu Alþýðusambands Íslands“. Meginkjarni flokksins var Málfundafélag jafnaðarmanna, sem áður hafði fylgt Alþýðuflokki, undir forystu Hannibals Valdimarssonar, og Sameiningarflokkur alþýðu – Sósíalistaflokkur, undir forystu Einars Olgeirssonar.

Alþýðuflokkur og Framsóknarflokkur stofnuðu kosningabandalag fyrir þingkosningarnar 24. júní 1956 með sameiginlegu framboði í öllum kjördæmum til að reyna að ná meirihluta á þingi og „útiloka“ Sjálfstæðisflokkinn frá áhrifum, jafnvel um aldur og ævi. Sjálfstæðismenn kölluðu bandalagið „hræðslubandalag“ og er það nafn þess í stjórnmálasögunni, þótt stofnendurnir nefndu samvinnu sína Bandalag umbótaflokkanna eða Umbótabandalagið. Tilraunin mistókst. Hræðslubandalagið fékk 33,9% atkvæða og 25 þingmenn (af 52) en í kosningunum 1953 fengu sömu flokkar 37,5% atkvæða og 22 þingmenn.

Eftir þingkosningar og stjórnarmyndunarviðræður í fjórar vikur settist vinstri stjórnin að völdum 24. júlí 1956. Haustið sama ár hafði hún horfið frá varnarleysisstefnu sinni og var varnarliðið hér áfram í 50 ár eða þar til Bandaríkjastjórn kallaði það heim í september 2006.

Hér er þetta rifjað upp til marks um, að samstaða um markmið í utanríkismálum, hafi ráðið því, að upp úr stjórnarsamstarfi slitnaði og flokkar tækju höndum saman í ríkisstjórn að kosningum loknum.

Síðan þetta gerðist er mikið vatn til sjávar runnið flokkaflóran er dálítið önnur en á þessum árum en þó ekki mikið breytt í grunninn. Sjálfstæðisflokkurinn er enn sem fyrr forystuflokkur, Framsóknarflokkurinn stendur á krossgötum, úr vinstri flokkunum urðu til Samfylking og vinstri/græn en frjálslyndir hafa kvarnast úr öðrum flokkum.

Nú hefur þjóðin gengið í gegnum mikil efnahagsleg áföll og ætla mætti, að ágreiningur um leiðir út úr þeim, setti mestan svip á stjórnmálaumræður, en þá ber svo við, að utanríkismál eru sett á oddinn, það er spurningin um aðild Íslands að Evrópusambandinu (ESB).

Hagsmunatengda áherslan á ESB-aðild byggist á þessari stundu á óttanum við, að íslenska krónan standist ekki nýja áraun eftir fallið á síðasta ári og eina leiðin til að losna við hana sé að ganga í Evrópusambandið. Pólitíska áherslan á rætur að rekja til kröfu Samfylkingarinnar um, að ríkisstjórnin breyti sáttmála sínum og setji aðild að Evrópusambandinu á dagskrá sína.

Hið sama gerist nú og veturinn 1955-56, að framsóknarmenn hlaupa á eftir þeim, sem boða nýja utanríkisstefnu, þvert á það sem vænta hefði mátt miðað við fyrri stefnu flokksins. Svo að ekki sé talað um rætur flokksins sem bændaflokks, því að andstaðan við ESB-aðild er mikil og eindregin meðal forystu bænda. Spyrja má: Fyrir hvað stendur Framsóknarflokkurinn, þegar hann segir skilið við bændur á þennan hátt og leifar Sambands ísl. samvinnufélaga eru að engu orðnar?

Sjálfstæðismenn héldu fast við stefnu sína í varnarmálum veturinn 1955 til 1956, þótt samstarfsmenn þeirra í ríkisstjórn, framsóknarmenn, bitu á agn stjórnarandstöðunnar og legðu þannig grunn að nýrri stjórn að kosningum loknum.

Nú bregst Sjálfstæðisflokkurinn þannig við sjónarmiðum samstarfsflokks síns, að landsfundi flokksins er flýtt, stofnuð er sérstök Evrópunefnd innan flokksins og boðað, að stefnan í Evrópumálum muni setja svip sinn á landsfund flokksins 29. janúar 2009.

Á þessari stundu er ekki unnt að fullyrða neitt um niðurstöðu landsfundar í Evrópumálum. Spurningarnar, sem þar rísa, snerta ekki aðeins efni málsins, heldur leiðina að niðurstöðu, til dæmis hvort kjósa eigi tvisvar um málið í þjóðaratkvæðagreiðslu.  Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í áramótagrein í Morgunblaðinu 31. desember:

„Sjálfgefið er að niðurstöður hugsanlegra aðildarviðræðna [að Evrópusambandinu] verði bornar undir þjóðina í atkvæðagreiðslu. En vegna alvöru og mikilvægis málsins tel ég einnig koma til greina að ríkisstjórnin fái, ef til þess kemur, skýrt umboð fyrirfram í þjóðaratkvæðagreiðslu til að ganga til aðildarviðræðna við ESB. Eðlilegt væri að setja sérstök lög um slíka atkvæðagreiðslu strax í febrúar og ganga til þjóðaratkvæðis nokkrum vikum síðar að lokinni eðlilegri kynningu á málinu. Yrði niðurstaðan sú að ganga til aðildarviðræðna þyrfti þegar að hefja undirbúning þeirra með aðkomu allra stjórnmálaflokka.“

Ég tek undir með Geir, að ekki ber að útiloka að kjósa tvisvar um málið. Hitt er, hvort raunsætt sé að setja því jafnþröng tímamörk og hann gerir, að ákveða, hvernig best verði staðið að þjóðaratkvæðagreiðslu.

Sumarið 2004 þegar hugsanlegt var, að greitt yrði þjóðaratkvæði um fjölmiðlalögin, var ekki samhljómur um, hvernig að atkvæðagreiðslunni yrði staðið. Um efni slíkra kosningalaga er nauðsynlegt að ná víðtækri sátt meðal forystumanna stjórnmálaflokkanna. Með hinum þrönga tímaramma hefur Geir vafalaust viljað stuðla að sátt við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, formann Samfylkingarinnar, sem vill hraða allri meðferð ESB-málsins.

Af orðum Ingibjargar Sólrúnar í Morgunblaðinu 3. janúar má hins vegar ráða, að henni hugnist ekki tillaga formanns Sjálfstæðisflokksins. Hún óttast, að kostir verði ekki nægilega skýrir sé lagt undir þjóðaratkvæði, hvort fara eigi í viðræður: „Að þá verði gert út á annars vegar óraunhæfar væntingar og kannski fordóma hins vegar. Ég hef því vissar áhyggjur af því að fara þessa leið,“ segir hún. Verði hún engu að síður ofan á, segir Ingibjörg Sólrún sterk rök hníga að því, að kosið yrði til alþingis samhliða.

Steingrímur J. Sigfússon, formaður vinstri/grænna, segir flokk sinn ekki hafa tekið afstöðu til þess, hvort rétt sé að hafa tvöfalda kosningu um aðild og aðildarviðræður að ESB. Þá hefur Morgunblaðið eftir Steingrími J.:

„Það sem mér leist ekki vel á í ræðu Geirs voru hugmyndir hans um að rjúka í þetta á einhverjum vikum. Ég átta mig satt best að segja ekki á því hvers konar óðagot eða taugaveiklun er í herbúðum sjálfstæðismanna því þetta eru svo stór og afdrifarík mál að menn hljóta að ætla að gefa eðlilegan tíma fyrir umræður og skoðanaskipti áður en farið er að kjósa um þessa hluti?.Okkar meginafstaða er sú að fyrstu kosningar á Íslandi eigi að vera alþingiskosningar og það fyrr en seinna.“

Valgerður Sverrisdóttir, formaður Framsóknarflokksins, segir, að á miðstjórnarfundi framsóknarmanna í nóvember hafi verið ákveðið að flýta flokksþingi þeirra, þar sem umfjöllunarefnið yrði hvort Ísland eigi að ganga til aðildarviðræðna við Evrópusambandið, án þess að fara í þennan millileik – það er tvær þjóðaratkvæðagreiðslur.

Guðjón A. Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, segist sammála því, að borið verði undir þjóðina, hvort fara eigi í aðildarviðræður, enda sé slíkt í samræmi við stefnu Frjálslynda flokksins um íbúalýðræði.

Morgunblaðið veltir málinu fyrir sér í leiðara 3. janúar 2009 og segir undir lok hans (feitletrun mín):

„Hugsanlega er það líka ókostur við að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarumsóknina að umræður um málið færu þá ekki fram með hliðsjón af staðreyndum um aðild Íslands, sem lægju fyrir í aðildarsamningi. Ákveðin hætta er á að stuðningsmenn aðildar fari þá að lofa of miklu og andstæðingarnir að mála skrattann á vegginn. Staðreyndin er auðvitað sú að bæði kostir og gallar eru við aðild að Evrópusambandinu. Menn geta margt ályktað fyrirfram út frá núverandi sáttmálum sambandsins og aðildarsamningum núverandi aðildarríkja um það hvernig aðildarsamningur við Ísland gæti litið út, en endanleg niðurstaða fæst ekki fyrr en aðildarviðræðunum er lokið. Það er að minnsta kosti mikilvægt að hafa það í huga, verði þessi leið farin.

Annar ókostur er að verði niðurstaða atkvæðagreiðslu sú að þjóðin vilji að sótt verði um aðild að ESB, er staða samningamanna Íslands gerð veikari. Menn hafa löngum getað fengið fram tilslakanir og undanþágur frá sáttmálum ESB með þeim rökum, að aldrei verði hægt að koma tilteknum atriðum í gegnum þjóðaratkvæðagreiðslu heima fyrir. Ef þjóðin hefur hins vegar þegar sagt já við aðildarumsókn, er hætta á að samningamenn ESB bendi á að þjóðarviljinn liggi þegar fyrir; Íslendingar hafi myndað sér skoðun á ESB.“

Þegar þessi orð Morgunblaðsins eru lesin er nauðsynlegt að hafa í huga, að aðildarumsókn er stefna viðkomandi ríkis gagnvart Evrópusambandinu. Þar koma menn sér saman um það á innlendum stjórnmálavettvangi, hvernig sjónarmið þjóðríkisins eru lögð undir hið yfirþjóðlega vald – þannig er samningsumboðið fengið og frá þjóðinni, leggi hún blessun sína yfir það.

Ráðherraráð ESB tekur við umsókninni, leggur hana fyrir framkvæmdastjórnina, sem metur, hvað fellur að stofnsáttmála og lögum ESB og hvað stendur út af – í umsókn er unnt að setja skilyrði, sem eru ófrávíkjanleg og bindandi af hálfu þjóðríkisins og sé þeim hafnað af framkvæmdastjórn og ráðherraráði, kunna frekari viðræður að vera óþarfar. Þjóð segir aldrei já við aðildarumsókn, ef í henni felst til dæmis afsal á yfirráðum yfir lífsbjörg hennar. Að bera umsóknina undir þjóðina skapar aðhald að þeim, sem semja hana og tryggir, að hvert atriði hafi verið þaulhugsað og rætt til hlítar.

Morgunblaðið þarf að færa rök fyrir því, að hin feitletruðu orð geti til dæmis átt við þá hagsmuni, sem Íslendingar hafa af því að halda fullum yfirráðum yfir auðlindum sjávar og 200 mílna fiskveiðilögsögu sinni.

Þessum leiðara Morgunblaðsins lýkur hins vegar á orðum, sem gefa til kynna, að blaðið telji stjórnarsamstarfið á veikum grunni. Þar segir:

„Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, segir í Morgunblaðinu í dag að verði efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarumsókn, séu sterk rök fyrir því að efna um leið til þingkosninga.

Auðvitað eru þetta alveg sjálfstæð viðfangsefni; annars vegar hvort efna eigi til þjóðaratkvæðis um ESB og hins vegar hvort slíta eigi núverandi stjórnarsamstarfi og efna til þingkosninga. Það að formaður Samfylkingarinnar tengi þetta saman með þessum hætti, bendir ekki til þess að mikil heilindi séu í stjórnarsamstarfinu lengur af hennar hálfu.

Hitt er svo annað mál að verði efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarumsókn, skiptir það engum sköpum lengur í málinu hvaða flokkar sitja í ríkisstjórn.“

Veturinn 1955 til 1956 sameinuðust andstæðingar Sjálfstæðisflokksins gegn honum um sameiginlega stefnu í varnarmálum, stefnu, sem þeir vissu, að flokkurinn mundi aldrei samþykkja. Nú ber annað við, því að formaður Sjálfstæðisflokksins setur  af stað umræðu innan eigin flokks til að fara yfir Evrópustefnuna og hreyfir í áramótagrein tillögu um ferli Evrópumála , sem á hljómgrunn í öllum flokkum. Nú á samstarfsflokkur sjálfstæðismanna ekki augljósa samfylgd með öðrum flokkum, því að Samfylkingin er ein á báti í Evrópumálum – hún á að minnsta kosti ekki samleið í þeim málaflokki með vinstri/grænum, engu að síður má lesa á eyjan.is hinn 3. janúar 2009:

„Rauðgræn ríkisstjórn Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs og Samfylkingarinnar verður niðurstaða hugsanlegra þingkosninga innan tíðar ef óskir Steingríms J. Sigfússonar rætast. Hann er sannfærður um að boðað verði til kosninga á næstu mánuðum og vill mynda stjórn með Samfylkingunni að þeim loknum.“

Hvað verður um Evrópumálin í rauðgrænni stjórn? Er áhersla Samfylkingarinnar á þau í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn aðeins leið til að skapa átyllu til stjórnarslita og kosninga? Er hið sama að gerast og á sínum tíma, þegar vinstri menn notuðu varnarmál til að útiloka samstarf við Sjálfstæðisflokkinn?  – Þá þóttust þeir þó samstiga um málstaðinn fram að kosningum. Nú er því ekki að heilsa, hvað sem síðan gerist að kosningum loknum.