25.1.2009 21:32

Sunnudagur, 25. 01. 09.

Föstudaginn 23. janúar tilkynnti Geir H. Haarde, forsætisráðherra, að efnt yrði til kosninga 9. maí. Þar með urðu þáttaskil í stjórnarsamstarfinu, því að það stendur ekki lengur en þetta þing situr.

Laugardaginn 24. janúar snýr Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar og utanríkisráðherra, heim af sjúkrabeði í Stokkhólmi eftir erfiða höfuðaðgerð vegna heilaæxlis.

Að morgni 25. janúar tilkynnir Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, að hann segi af sér ráðherraembætti og hann hafi rekið forstjóra fjármálaeftirlitsins og alla stjórn þess.

Um hádegi 25. janúar er bein útsending frá því, þegar Ingibjörg Sólrún og Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, ganga saman frá heimili forsætisráðherra, þar sem þau sátu fund með honum og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, varaformanni Sjálfstæðisflokksins og menntamálaráðherra.

Klukkan 17.00 25. janúar er sagt frá því, að Ingibjörg Sólrún hafi að nýju farið heim til forsætisráðherra. Í kvöldfréttum er rætt við þau Ingibjörgu Sólrúnu og Geir um stjórnarsamstarfið, sem sagt er í óvissu en niðurstaða fáist 26. janúar.

Í fréttum er sagt frá því, að Skúli Helgason, framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar, hafi sett fram kröfur á hendur Sjálfstæðisflokknum á vefsíðu Samfylkingarinnar. Af spurningum og frásögnum fréttamanna má ráða, að þeir líti á samtölin á heimili forsætisráðherra eins og um stjórnarmyndun sé að ræða. Hvort fallist verði á þetta skilyrðið eða hitt til að stjórnin sitji áfram.

Nýlunda er, að lagt sé á ráðin um nýja stjórn eða ný pólitísk markmið, hafi kosningar verið ákveðnar, vegna þess að menn koma sér ekki saman um að starfa út kjörtímabilið.

Ég hallast að því, að í dag höfum við orðið vitni að upphafi á kosningabaráttunni og nú sé það í höndum flokkanna að huga að eigin stefnu til framtíðar en ekki semja um, hvað stjórnin eigi að gera í öðru en brýnum afgreiðslumálum fram að kosningum - þau skortir ekki og þau verða ekki leyst með úrslitakostum, sem settir eru til að skapa sér pólitíska stöðu.

Björgvin G. Sigurðsson telur sér henta að sækjast eftir endurkjöri utan ríkisstjórnar. Hvað um Samfylkinguna í heild? Spurningin er þessi en ekki, hvaða skilyrði Samfylkingin setur Sjálfstæðisflokknum. Talið um skilyrðin þjónar þeim eina tilgangi að breiða yfir ágreining innan Samfylkingarinnar og það veit framkvæmdastjóri hennar og einnig hitt, að fjölmiðlamenn blekkjast oft af villuljósum.