3.1.2009 21:24

Laugardagur, 03. 01. 09.

Ég leit rúm 50 ár aftur í tímann til að glöggva mig á stjórnmálaástandi líðandi stundar og stöðu stjórnarsamstarfsins við upphaf nýs árs, þegar ég skrifaði pistil minn í dag.

Nú er BBC World News að segja frá innrás landhers Írsaels inn á Gazasvæðið, þar sem um 1,5 milljón Palestínumenn búa á litlum landskika. Markmið Ísraela er að stöðva í eitt skipti fyrir öll eldflaugaárásir hamas-liða á Gaza á bæi og borgir í Ísrael.

Tilraunir til að koma á friði með milligöngu fulltrúa Evrópusambandsins hafa engan árangur borið. Boðað er, að Nicolas Sarkozy, Frakklandsforseti, komi á vettvang nk. mánudag. Hann hefur þó ekki lengur umboð frá Evrópusambandinu.

Stjórnarkreppa er í Ísrael og kosningar í vændum. Það er ekki nýmæli, að við þessar aðstæður grípi Ísraelsstjórn til vopna og hafi alla gagnrýni alþjóðasamfélagsins að engu. Innrásin er gerð eftir 8 daga loftárásir á Gaza. Spurning er, hvort Arabaríki grípi til vopna gegn Ísrael en spenna er einnig á landamærum Ísraels og Líbanons.

Fréttakona BBC er í þessari andrá í símasambandi við íbúa á Gaza en verður að ljúka samtalinu, þegar sprengja fellur í nágrenni viðmælandans, sem segist sitja í myrkri í kjallara með fjölskyldu sinni.