30.1.2009 10:35

Föstudagur, 30. 01. 09.

Þorsteinn Pálsson, ritstjóri Fréttablaðsins, skrifar leiðara um hvalveiðar í blað sitt í dag, en Jón Ásgeir Jóhannesson, eigandi blaðsins, hefur lýst eindreginni andstöðu við hvalveiðar, eins og sjá má hér.

Í leiðara sínum segir Þorsteinn meðal annars:

„Athyglisvert er að í hópi mjög ákveðinna stuðningsmanna endurnýjaðra og aukinna hvalveiðiheimilda nú eru menn sem áður fyrr voru þeim andsnúnir. Einn þeirra er fráfarandi dómsmálaráðherra. Leiða má að því líkum að Evrópumálin hafi þar nokkur áhrif. Hvalveiðarnar munu án vafa valda talsverðum erfiðleikum á síðari stigum í hugsanlegum aðildarviðræðum. Auðvelt er að gera andstöðu Evrópusambandsins við þennan fullveldisrétt tortryggilega.“

Hér fer Þorsteinn með rangt mál. Þegar hann var sjávarútvegsráðherra og beitti sér fyrir úrsögn Íslands úr Alþjóðahvalveiðiráðinu, snerist ég eindregið gegn því. Ég taldi, að Íslendingar gætu ekki hafið hvalveiðar nema þeir væru í ráðinu. Sú skoðun reyndist rétt - Íslendingar gengu aftur í Alþjóðahvalveiðiráðið, áður en ákveðið var að hefja hvalveiðar. Að lýsa þessari skoðun minni sem andstöðu við hvalveiðar er alrangt og enn fjær öllu lagi er láta að því liggja, að skoðanir mínar á þessu máli ráðist af andúð minni á því, að Íslendingar gerist aðilar að Evrópusambandinu.

Síðdegis var efnt til mjög fjölmenns fundar sjálfstæðismanna á Grand hotel, þar sátum við ráðherrar flokksins fyrir svörum. Hér er frétt af því, sem ég sagði og einnig hér.