9.1.2009 21:35

Föstudagur, 09. 01. 09.

Í dag var lokið prentun bókar eftir mig Hvað er Íslandi fyrir bestu? Hún fjallar um tengsl Íslands og Evrópusambandsins og hefur að geyma ritgerðir og pistla  úr bókum, blöðum og af netinu. Bókafélagið Ugla gefur bókina út og verður hún kynnt og til sölu í bókaverslunum eftir helgi.  Með bókinni vil ég efla umræður um Evrópumálin.

Breytingar urðu á yfirstjórn dóms-  og kirkjumálaráðuneytisins í dag, þegar Ragna Árnadóttir, skrifstofustjóri lagasviðs og staðgengill ráðuneytisstjóra, fór tímabundið til starfa sem skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu, en Halldór Árnason fór þaðan í ráðuneytisstjórastól menntamálaráðuneytisins, Guðmundur Árnason hvarf úr því embætti til að samhæfa mál vegna bankahrunsins fyrir forsætisráðherra.  Þórunn J. Hafstein verður staðgengill ráðuneytisstjóra í dóms- og kirkjumálaráðuneyti og Bryndís Helgadóttir verður sett í stól Rögnu. Öll eru þau öflugir embættismenn, sem ég hef kynnst af góðu einu í áranna rás.

Gísli Marteinn Baldursson var í Kastljósi hjá Helga Seljan í kvöld og dró vel fram, hve mikið ójafnvægi er í umræðum Helga og samstarfsmanna hans um skipan manna í störf dómara. Ég hef áður minnst á ásakanir Helga í minn garð um lögbrot fyrir að hafa vikið sæti á öðrum tíma en umboðsmaður taldi heppilegt.

Guðmundur Steingrímsson, pólitískur flóttamaður úr Samfylkingunni og nýendurnýjaður framsóknarmaður, var með þeim Gísla og Helga í þættinum. Honum þótti óviðeigandi, að Gísli skyldi víkja gagnrýnisorði að áliti umboðsmanns  alþingis  – Gísli Marteinn minnti á, að ekki þætti lengur goðgá að rökræða niðurstöðu dóma.

Guðmundur hefur tilkynnt, að hann taki ekki sæti sem varamaður  fyrir Samfylkinguna á þingi eftir flóttann. Meðal þingmanna velta menn því fyrir sér, hvort Guðmundur sé í hópi þeirra, sem þola ekki að þurfa að styðja ríkisstjórn. Hann hafi flúið Framsóknarflokkinn, á meðan hann var í stjórn, og nú flýi hann Samfylkinguna.

Á vefsíðu The Economist  er að finna forvitnilega úttekt á þróun mála á Norðurskautinu.

Í sama mund og ég er að ganga frá þessu inn á síðuna er bandaríska myndin Smáborg í sjónvarpinu og er hún kynnt sem fjölskyldumynd. Hver skyldi velja þessar bandarísku fjölskyldumyndir á vegum ríkisins?