23.1.2009 10:00

Föstudagur, 23. 01. 09.

Miðstjórn og þingflokkur sjálfstæðismanna komu saman á fundi í hádegi til að ræða landsfundinn, sem boðaður hafði verið 29. janúar. Í upphafi fundar gerði Geir H. Haarde grein fyrir því, að staðan í stjórnmálum væri á þann veg, að hann teldi öll rök hníga að því að boða til kosninga annan laugardag í maí, hinn venjulega kjördag hin síðari ár, að þessu sinni 9. maí. Í ljósi þessa væri skynsamlegt að fresta landsfundi flokksins til síðustu helgarinnar í mars. Fyrir utan þessi stjórnmálarök væri annað persónulegra, sem mælti með frestun landsfundarins, það er að hann hefði þriðjudaginn 20. janúar greinst með krabbamein í vélinda og yrði að ganga undir aðgerð erlendis um aðra helgi, það er fyrirhugaða landsfundarhelgi. Þetta hefði komið í ljós við reglulega skoðun lækna.

Víst var, að ýmsir fundarmenn höfðu ætlað að koma í veg fyrir frestun landsfundar, en þess var getið í Morgunblaðinu í morgun, að það væri til athugunar. Við ræðu Geirs og óvænta og dapurlega tilkynningu hans varð öllum ljóst, að ákvörðun um frestun landsfundar yrði ekki hnikað. Geir skrapp af fundinum í svonefnda bókastofu Valhallar og gaf þar yfirlýsingu á blaðamannafundi.

Fyrir utan Valhöll höfðu mótmælendur barið pottlok undir forystu Hallgríms Helgasonar rithöfundar en Ragnheiður Ríkharðsdóttir, alþingismaður, vék sér út af fundi og benti Hallgrími á, hvað Geir hefði sagt og hætti þá gauraganguinn utan dyra.

Kjartan Gunnarsson, æskuvinur Geirs, tók til máls og lýsti fyrir hönd allra á fundinum þeim tilfinningum, sem brutust fram við ræðu forsætisráðherra. Fundarmenn óskuðu Geir og fjölskyldu hans alls góðs en líklegt er, að á þessari stundu hafi menn ekki áttað sig til fulls á því, hve mikil tíðindi voru þarna að gerast og hver áhrif þeirra yrðu.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, kom til landsins í dag frá Stokkhólmi, þar sem hún gekkst undir aðgerð og rannsókn vegna heilaæxlis. Við heimkomuna skýrði hún frá því, að rannsóknir hefðu staðfest, að æxlið væri góðkynja.

Formenn beggja stjórnarflokkanna glíma við veikindi, þegar um 100 dagar eru til kosninga. Steingrímur J. Sigfússon, formaður vinstri/grænna, tók að múðra yfir því, að kjördagu yrði 9. maí, hann ætti að verða fyrir páska. Kannski var hann að gera þetta, svo að mótmælendur gætu haldið áfram að kalla á kjördag, þótt hann hefði verið ákveðinn í vor.

Hörður Torfason, forgöngumaður mótmæla undir hinu hógværa heiti Raddir fólksins, gaf til kynna, að Geir væri að draga veikindi sín ómaklega inn í stjórnmálabaráttuna. Sagði Hallgrímur Helgason, rithöfundur, í Kastljósi eitthvað á þá leið, að Hörður hefði farið út fyrir hæfileg mörk og ætti að biðjast afsökunar.

Hallgrímur réðst síðdegis miðvikudaginn 21. janúar að bifreið Geirs, þegar henni var ekið frá stjórnarráðshúsinu, og lamdi hana utan með krepptum hnefa. Hvort Hallgrímur hafi beðist afsökunar á þeirri framgöngu, veit ég ekki, en skrýtið var að sjá hann uppblásinn af æsingi og hávaða, þegar ég gekk í flasið á honum á leið minni inn í Valhöll í dag.