Þriðjudagur, 06. 01. 09.
Ríkisstjórn kom saman til fyrsta fundar á árinu og var hann haldinn í alþingishúsinu.
Síðdegis hittist þingflokkur sjálfstæðismanna á fundi og ræddi stöðu mála í upphafi nýs árs.
Kristmundur Bjarnason, fræðaþulur á Sjávarborg í Skagafirði, sendi fyrir jólin frá sér bókina Amtmaðurinn á Einbúasetrinu - ævisaga Gríms Jónssonar. Þetta er vel rituð og trúverðug bók. Hún lýsir ekki aðeins ævi söguhetjunnar heldur einnig samskiptum Íslendinga og Dana á fyrri hluta nitjándu aldar og íslenskum stjórnmálum og þjóðlífi á síðustu árunum fyrir endurreisn alþingis.
Gildi frásagnarinnar byggist ekki síst á því, hve mikla virðingu Kristmundur ber fyrir heimildum sínum og hve víða hann hefur leitað fanga meðal annars til að hrekja fullyrðingar þeirra, sem skráðu söguna sjálfir.
Íslensk stjórnsýsla er sprottin úr þeim jarðvegi, sem skapaður er af Grími og öðrum embættismönnum þessa tíma. Afskipti sýslunarmanna af hag einstaklinga og áhrif þeirra á afkomu þeirra hafa verið ótrúlega mikil.
Þegar rætt er um hefðir og venjur hér á landi og það, sem tíðkast í stjórnsýslu annars staðar, verður samanburðurinn lítils virði, þegar mælistaka einnar þjóðar er færð yfir á aðra. Í þessu efni er miklu nær að meta stöðu samtímans í ljósi þess, sem áður var innan sömu stjórnsýslu og spyrja síðan, hvort miðað hafi til betri áttar.