8.1.2009 20:12

Fimmtudagur, 08. 01. 09.

Nú um jólahátíðina sendi hugveitan Open Europe frá sér greinargerð um fjárveitingar Evrópusambandsins (ESB) til kynningar á sjálfu sér og til að ná markmiðinu um „sífellt nánari Evrópu“. Þar kemur fram, að árinu 2008 hafi verið varið að minnsta kosti 2,8 milljörðum evra í þessu skyni. Segir í greinargerðinni, að það sé hærri fjárhæð en Coca Cola verji ár hvert til auglýsinga og kynningarstarfs um heim allan.

Open Europe gagnrýnir allt þetta kynningarbrölt ESB og telur um hreinan fjáraustur í alls kyns gæluverkefni að ræða. Bent er á, að í Bretlandi hafi ESB aldrei síðustu 25 ár notið jafn lítils stuðnings og um þessar mundir. Áróður ESB megi sín lítils á meðan forystumenn sambandsins taki sig ekki á og geri betur. Vilji forystumenn ESB raunverulega öðlast vinsældir meðal fólks ættu þeir að sýna kjósendum snefil að virðingu, en ekki tala niður til þeirra, eins og gert hafi verið eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna á Írlandi.

32 hagfræðingar rituðu gegn einhliða gjaldmiðilsskiptum í Morgunblaðið 7. janúar. Grein þeirra eru gerð nokkur skil í Vef-Þjóðviljanum í dag. Þá benda tveir hagfræðingar á það í Morgunblaðinu í dag, að hvert ár, sem dragist að skipta um gjaldmiðil kosti Íslendinga 100 milljarða króna í vaxtagreiðslur af jöklabréfunum svonefndu. Þá sé ekkert að marka þá fullyrðingu, að seðlabankar séu lánveitendur til þrautavara - fjármálakrísan hafi einmitt sýnt, að það séu ríkissjóðir en ekki seðlabankar, sem komi bönkum til bjargar og ábyrgist innistæður.

Í dag var sagt frá því, að þýska ríkið hefði að hluta þjóðnýtt Commerzbank, annan stærsta þýska bankann, með því að eignast 25% hlutafjár í honum og láta honum í té 10 milljarða evra.

Þýska ríkisstjórnin kom á laggirnar 500 milljarða björgunarsjóði banka sl. haust til að koma á stöðugleika í fjármálakerfinu. Ekki bendir það til, að þýski seðlabankinn eða hvað þá heldur hinn evrópski séu lánveitendur til þrautavara. Hvernig ætli 32 íslenskum hagfræðingum detti í hug, að þrautavaramál séu í höndum seðlabankastjóra í Evrópu - eða Bandaríkjunum? Hagfræðingarnir sögðu: „Mestu skiptir þó (við að fara ekki leið einhliða upptöku á evru) að hlutverk Seðlabankans á sviði fjármálastöðugleika, einkum sem lánveitanda til þrautavara, yrði eflt til muna ..“

Samfylkingarbloggarinn Andrés Jónsson telur mig hafa verið að harma fjárveitingar til að auka öryggisgæslu við Bessastaði hér á síðunni 23. desember. Þessi niðurstaða lýsir hug Andrésar en ekki mínum. Ég fagna því, að veitt sé fé til þessa þáttar öryggismálanna eins og annarra.