14.1.2009 21:52

Miðvikudagur 14. 01. 08.

Snemma morguns ók ég með þeim Þóri Hrafnssyni, aðstoðarmanni mínum, og Þórunni J. Hafstein, skrifstofustjóra, frá Reyðarfirði til Egilsstaða til fundar við Lárus Bjarnason, sýslumann, Óskar Bjartmarz, yfirlögregluþjón, og samstarfsfólk þeirra. Áður en við hittum þá klukkan 09.00 höfðum við tíma til að skreppa í Menntaskólann á Egilsstöðum og skoða nýbyggingu hans undir leiðsögn Þorbjörns Rúnarssonar, setts skólameistara.

Að lokinni heimsókninni til sýslumanns hittum við Halldór Björnsson, héraðsdómara á Austurlandi, áður en við ókum til Norðfjarðar. Þar fórum við í Verkmenntaskóla Austurlands og skoðuðum nýtt verknámshús hans undir leiðsögn Olgu Lísu Garðarsdóttur, skólameistara.

Í hádeginu var efnt til fundar á vegum sjálfstæðismanna í hótel Capitano í Neskaupstað, þar sem við Ólöf Nordal, alþingismaður, fluttum framsöguræður. Hugur fundarmanna í garð Evrópusambandsins var hinn sami og á Reyðarfirði.

Klukkan 15.15 vorum við á lögreglustöðinni í Eskifirði og hittum þar Inger L. Jónsdóttur, sýslumann, Jónas Vilhelmsson, yfirlögregluþjón, og samstarfsfólk þeirra. Var því formlega fagnað, að framkvæmdum við stækkun á húsnæði embættisins væri lokið.

Frá Eskifirði ókum við að nýrri öryggismiðstöð, sem reist hefur við hliðina á álveri Alcoa og hýsir slökkvilið og sjúkrabifreiðar. Undir forystu Helgu Jónsdóttur, bæjarstjóra Fjarðabyggðar, og Guðmundar Helga Sigfússonar, slökkviliðsstjóra, var okkur kynnt starfsemi þessarar glæsilegu miðstöðvar.

Það var nokkur hálka á vegum fyrir austan og fjúk á leiðinni um Oddskarð. Íbúum í Norðfirði er mikið kappsmál, að ný jarðgöng verði gerð milli þeirra og Eskifjarðar til að bæta öryggi og greiða fyrir samgöngum. Þegar færðin er eins og hún var í dag eða enn verri, er ekki að undra, að litið sé á skarðið sem farartálma innan sveitarfélagsins og á leið til sjúkrahússins á Neskaupstað.

Í ferðinni notaði ég tækifærið og kynnti bók mína um Evrópumálin, Hvað er best fyrir Ísland?

Klukkan 19.25 flugum við frá Egilsstöðum.