21.1.2009 9:00

Miðvikudagur, 21. 01. 09.

Í fréttum hljóðvarp ríkisins klukkan 08.00 birtist þessi frétt (feitletrun mín):

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra segir að lögreglan verði efld bæði með tækjum og mannafla ef mótmæli gegn valdstjórninni harðna. Dómsmálaráðherra segist skilja vel að fólk vilji mæta á Austurvöll, mótmæla og láta í ljós skoðun sína á einstökum málum eins og því hvort ríkisstjórn eigi að fara eða vera.

Hann gerir athugasemdir við samskipti Álfheiðar Ingadóttir, þingmanns Vinstri grænna, við mótmælendur í gær. Hann hafi ekki séð þau en fólk sem hafi séð til hennar hafi orðið undrandi. Menn hafi talið að hún væri að gefa mótmælendum bendingar sem þeir töldu óeðlilegar. Þá hafi viðbrögð hennar við lögreglumönnum á svæðinu vakið undrun fólks.“

Þessi frétt er birt með vísan til samtals, sem Heiðar Örn Sigurfinnsson, fréttamaður RÚV, tók við mig um kl. 19.00 þriðjudaginn 20. janúar í þinghúsinu. Útskrift af viðtalinu eins og það var birt á Morgunvakt rásar 1 nú í morgun birti ég hér.

Heiðar Örn spyr mig: „Heldur þú að það þurfi að efla lögregluna til þess að takast á við þetta eða einhverja aðra?“ Og ég svara: „Ja, ég tel nú að það þurfi að sjálfsögðu að huga að því ef mótmæli verða harðari og mótmælendur einbeittari núna í því að brjóta á bak aftur valdstjórnina þá þurfi að búa hana þannig að hún geti tekist á við þau viðfangsefni bæði með tækjum og mannafla.“

Ég legg það í dóm lesenda, hvort ekki sé annar blær á orðum mínum í samtalinu en útleggingu fréttastofu hljóðvarps ríkisins. Blæbrigðamunurinn olli því vafalaust, að hinir ofurnæmu stjórnendur Víðsjár  á rás 1 urðu skelkaðir og sögðu mig hneykslaðir við sama heygarðshornið, alltaf að ögra fólki. Í raun lá beint við að svara spurningu Heiðars Arnar á þann veg, að styrkja yrði lögreglu, ef í frekara óefni stefndi - það hefði verið fréttnæmt, ef ég hefði svarað á annan veg.

Þingfundir voru felldir niður í dag, svo að unnt yrði að gera við skemmdir á þinghúsinu og þrífa það. Mótmæli voru áfram við mannlaust húsið og einnig við stjórnarráðshúsið, þar sem ráðist var að bíl Geirs H. Haarde, þegar hann hélt úr húsinu.

Þingflokkur sjálfstæðismanna hittist og ræddi ítarlega um stöðuna í stjórmálum.

Rúmlega 22.00 birtist þessi frétt á mbl.is:

„Fjölmennur félagsfundur Samfylkingarfélags Reykjavíkur samþykkti rétt í þessu samhljóða - með dynjandi lófataki - ályktun þess efnis að skora á þingflokk Samfylkingarinnar að beita sér fyrir því að ríkisstjórnarsamstarfinu verði umsvifalaust slitið, og mynduð verði stjórn sem starfi fram að kosningum sem fram fari eigi síðar en í maí 2009.“

Vegna fundarins kom fjöldi mótmælenda saman við Þjóðleikhúsið en Samfylkingin hélt fund sinn í kjallara þess. Fóru mótmælendur inn á fundinn og fögnuðu niðurstöðu hans mikið.

Geir H. Haarde var bæði í Íslandi í dag á Stöð 2 og Kastljósi sjónvarpsins í kvöld. Hann sagði þau Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur sammála um að halda stjórnarsamstarfinu áfram. Hann taldi kosningar fyrir lok kjörtímabils ekki útilokaðar en þær yrðu í fyrsta lagi næsta vetur.

Sindri Sindrason, fréttamaður á Stöð 2, var svo æstur, þegar hann spurði Geir, að spurningar hans misstu marks, úr því að Geir gafst varla tóm til að svara þeim.

Steingrímur J. Sigfússon sat á móti Geir í Kastljósi. Hann var spurður um tilboð Framsóknarflokksins um að verja samstjórn Samfylkingar og vinstri/grænna vantrausti, enda yrði kosið fyrir 25. apríl. Steingrímur J. útilokaði þetta ekki en sagðist ekkert hafa rætt við forystumenn Samfylkingarinnar en hann hefði hitt Sigmund Davíð Gunnlaugsson, nýkjörinn formann Framsóknarflokksins, stuttlega á fundi.