Mánudagur 16. 01. 17
Yfirlýsingar Donalds Trumps í viðtali við Bild og The Times valda undrun og uppnámi í Evrópu og Bandaríkjunum, hér má sjá frásögn af samtalinu. Fimm dögum fyrir embættistöku sína heldur Trump áfram að tala út og suður um viðkvæm málefni.
Annars vegar segir hann að NATO sé sér „mikils virði“ og hins vegar að bandalagið sé „úrelt“. Annars vegar segist hann dást að Merkel sem „frábærum leiðtoga“ hins vegar segir hann Merkel hafa gert „hroðlaleg mistök“ í útlendingamálum með því að opna Þýskaland á árinu 2015 fyrir farand- og flóttafólki. Annars vegar segist hann ætla að efla kjarnorkuherafla Bandaríkjanna og hins vegar að bjóða Rússum afnám viðskiptaþvingana minnki þeir kjarnorkuherafla sinn.
Í raun stendur ekki steinn yfir steini en athyglin beinist að þeim hluta ummælanna sem þykja fréttnæmust og það eru þau sem valda mestu uppnámi.
Ég hef fylgst með og skrifað um utanríkis- og öryggismál í um það bil hálfa öld og aldrei orðið vitni að öðru eins og þessari lausung Donalds Trumps sem er í hróplegri andstöðu við festuna sem birtist í skoðunum þeirra sem hann hefur valið í stjórn sína til að fara með utanríkis- og varnarmál.
Á sjöunda og áttunda áratugnum voru umræður um framleiðslu og notkun á svonefndri nifteindarsprengju sem sögð var hafa hræðilegan eyðingarmátt en nota mætti í návígi til dæmis gegn skriðdekum. Var ráðgert að koma slíkum sprengjum fyrir í Vestur-Þýsklalandi til að auka fælingarmátt bandaríska hersins gegn sovéska heraflanum. Tók jafnaðarmaðurinn Helmut Schmidt, kanslari Þýskalands frá 1974 til 1982, á sig verulega pólitíska ágjöf til að Bandaríkjamönnum yrði heimilt að geyma nifteindarsprengjur í vopnabúrum sínum í V-Þýskalandi.
Þegar komið var að framkvæmd málsins á árinu 1978 snerist Jimmy Carter Bandaríkjaforseta allt í einu, jafnvel á einni nóttu, hugur og hætt var við allt saman. Man ég eftir að hafa heyrt Helmut Schmidt flytja ræðu á ráðstefnu sem ég sat þar sem hann hellti úr skálum reiði sinnar vegna þessa tvískinnungs Carters sem hefði skilið sig eftir á berangri sem skotspæni pólitískra andstæðinga sinna.
Hvergi var ánægjan meiri með Carter en í Moskvu. Skyldi ekki sama gilda um Trump núna?