11.1.2017 14:45

Miðvikudagur 11. 01. 17

Í dag ræði ég við Margréti Hallgrímsdóttur þjóðminjavörð á ÍNN, frumsýnt kl. 20.00 í kvöld.

Það tók frá 29. október 2016 til 9. janúar 2017 að mynda ríkisstjórnina sem síðan var skipuð á fundi ríkisráðsins á Bessastöðum í dag. Allan þennan tíma höfðu forystumenn flokkanna sjög sem eiga sæti á alþingi tækifæri til að reyna myndun meirihluastjórnar, þrír fengu formlegt umboð til þess frá forseta Íslands: Birgitta Jónsdóttir Pírati, Bjarni Benediktsson og Katrín Jakobsdóttir VG.

Birgittu og Katrínu mistókst.

Birgitta útilokaði Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn. Tilraun hennar var dauðadæmd frá upphafi þótt hún teldi þremur dögum fyrir uppgjöf sína 90% líkur á að tilraun sín mundi heppnast. Sannaðist enn hve pólitísk dómgrein hennar er brengluð og sama má segja um Smára McCarthy, flokksbróður Birgittu. Hann mat stöðuna í stjórnarmyndunarviðræðunum einnig alrangt.

Eftir að hafa tapað á heimavelli og öllu trausti rúin reynir Birgitta að ná sér niðri á Bjarna Benediktssyni með aðstoð erlendra fjölmiðlamanna. Veikir það mjög traust til erlendra blaða að sjá þau birta fréttir með Birgittu sem heimildarmann. Fyrir henni vakir ekki annað en skítkast í sama anda og hún stundar hér á landi.

VG klofnaði ofan í rót þegar hann átti aðild að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur 2009 til 2013. Katrín Jakobsdóttir varð formaður til að breiða yfir klofninginn. Sú viðleitni hennar gerir hana í raun áhrifalausa í samskiptum við aðra flokka. Henni er um megn að taka ákvörðun sem miðar að samstarfi við aðra af ótta við að gjáin í flokki hennar opnist að nýju og hún detti sjálf ofan í hana. Undir forystu Katrínar verður VG ekki annað en nöldurflokkur sem helst hampar því að hann sé grænn þótt kjarninn sé rauður.

Bjarna Benediktssyni tókst að mynda ríkisstjórn með eins atkvæðis meirihluta. Hann sýndi þolinmæði í viðræðum við forystumenn Viðreisnar og Bjartrar framtíðar og til varð stjórnarsáttmáli flokkanna sem endurspeglar að sjálfsögðu að þeir eru ekki sammála um allt en er fjarri því sem um hefði verið samið til að finna samnefnara í viðræðum Bjarna við VG og Framsóknarflokkinn.

VG undir forystu Katrínar vildi aldrei annað en sýndarviðræður við Bjarna. Það er því meira en lítið hallærislegt að sjá Katrínu hneykslast á sáttmála ríkisstjórnarinnar. Vilji hún beina spjótum sínum að einhverjum vegna niðurstöðunnar um stjórnarsamstarf ætti hún að gera sjálfa sig að skotspæni. Verður henni lengur sætt sem formaður VG?