6.1.2017 10:15

Föstudagur 06. 01. 17

Fréttatíminn er furðublað sem dreift er ókeypis til einhvers hluta landsmanna sem fær ekki rönd við reist. Nú er upplýst að tveir kjölfestufjárfestar blaðsins hafi selt Gunnari Smára Egilssyni ritstjóra þess sinn hlut í félaginu að baki blaðinu, Morgundegi, og Gunnar Smári sé í senn stjórnarformaður og ritstjóri. Blaðið sem dreift var í dag snýst að mestu um það hugðarefni ritstjórans að skattar verði hækkaðir á Íslandi auk þess sem hann heldur áfram fyrri iðju að tala illa um Sjálfstæðisflokkinn og skilgreina hann á sérkennilegum forsendum sem hann gefur sér.

Þessi skrif Gunnars Smára eru eins og ákall úr fortíðinni. Einhverjir geta líklega fundið út hvar hann sigldi skoðanalega í strand. Víst er að hann hefur siglt mörgum fjölmiðlum í strand. Er raunar einnig rannsóknarefni hvers vegna fjármálamenn eru til þess búnir að veðja á blaðaútgáfu Gunnars Smára miðað við söguna, þær fjárfestingar eru örugglega ekki reistar á nákvæmum áreiðanleikakönnunum.

Nokkrar umræður hafa orðið um hvort hér sé hagrætt úrslitum kappleikja til að tryggja sem mestan hagnað þeirra sem veðja á slík úrslit.

Þegar um þetta er rætt minnist ég þáttar um þennan alþjóðavanda í BBC World Service. Sé rétt munað var fréttamaðurinn á ferð í Singapúr og fór þar inn á veðmálastofu þar sem menn sátu og veðjuðu á leiki.

Fréttamaðurinn spurði hvort þeir óttuðust ekki hagræðingu úrslita. Einn þeirra sagðist vissulega gera það en hann vissi þó um eitt land þar sem menn gripu ekki til slíkra ráða í gróðaskyni, það væri Ísland. Nú er þetta ef til vill breytt eins og svo margt annað.