29.1.2017 15:00

Sunnudagur 29. 01. 17

Donald Trump Bandaríkjaforseti vekur undrun dag hvern vegna ákvarðana sinna. Sumar tekur hann aðeins til að sýnast því að fleiri þurfa að koma að málum til að því verði hrundið í framkvæmd sem hann ákveður. Annað hefur tafarlaus áhrif og má þar nefna forkastanlega lokun bandarísku landamæranna fyrir ákveðnum hópum fólks. Þeir sem urðu strandaglópar vegna þessa ætla þó að láta reyna á það fyrir dómstólum.

Föstudaginn 27. nóvember skrifaði ég grein í Morgunblaðið sem má lesa hér um fund Thereseu May, forsætisráðherra Breta, þann dag með Trump í Washington. Hún var fyrsti þjóðarleiðtoginn sem hitti Trump eftir að hann varð forseti. Bæði lögðu þau áherslu á sérstaka sambandið sem er á milli Breta og Bandaríkjamanna og daginn fyrir fundinn með Trump flutti May erindi í Fíladelfíu á fundi þingmanna repúblíkana. Ég snaraði þessu erindi á íslensku og má lesa það hér.

Ástæðan fyrir að ég tók mér fyrir hendur að þýða erindi May er að líklega verður litið á för hennar til Bandaríkjanna og fund hennar með Trump sem upphaf nýrra tíma í þróun alþjóðamála. Það er stærra skref en við skynjum á líðandi stundu að Bretar stíga út úr Evrópusambandinu og ætla að láta að sér kveða á eigin forsendum og í sérstakri samvinnu við Bandaríkjamenn á alþjóðavettvangi.

Engu er líkara en einhverjir kraftar hafi losnað úr læðingi í Bretlandi við ákvörðunina um að segja skilið við ESB. Birtist þetta greinilega í ræðu May en sem aðilar að ESB gátu breskir ráðamenn ekki talað á þennan veg, allar þeirra skoðanir á samvinnu við aðrar þjóðir urðu að fara í gegnum sigti í Brussel enda gerir ESB samninga við þriðju ríki en ekki einstök aðildarríki.

Þeir sem hafa komið að samtölum við stjórnarerindreka Bandaríkjanna undanfarin ár fyrir Íslands hönd urðu varir við að innan bandaríska stjórnkerfisins litu menn þannig á að leiðin að samstarfi við Íslendinga yrði líklega framvegis í gegnum Brussel vegna aðildar Íslands að ESB. Aðildin er úr augsýn og Bandaríkjamenn munu endurskoða samstarf sitt við þjóðir við Norður-Atlantshaf vegna úrsagnar Breta úr ESB.

Stóra utanríkispólitíska viðfangsefni íslenskra stjórnmálamanna næstu misseri er að tryggja hagsmuni þjóðarinnar við þessar breyttu aðstæður. Þar verður að í senn að sýna staðfestu og framsýni. Utanríkismál hafa ekki verið ofarlega á dagskrá íslenskra stjórnmála, þekking og þjálfun í umræðum um þau ber þess merki. Þessu verður að breyta.