27.1.2017

Trump og May ræða nýskipan alþjóðamála

Morgunblaðið 27. janúar 2017

Í dag, föstudaginn 27. janúar, hittast á fundi í Washington Donald Trump, 45. forseti Bandaríkjanna, og Theresa May, forsætisráðherra Breta. Fyrir einu ári hefði enginn spáð því að þau sætu í háum embættum sínum í dag og ræddu um framtíð náinnar samvinnu þjóða sinna, örlög Evrópusambandsins og hvernig standa beri að NATO og tryggja virkari þátttöku allra aðildarríkja þess svo að þau standi við gagnkvæmar skuldbindingar.

Fundur leiðtoganna tveggja er haldinn aðeins viku eftir að Donald Trump tók við forsetaembættinu. Hann lagði áherslu á að Theresa May yrði fyrsti erlendi þjóðarleiðtoginn til að hitta sig í Hvíta húsinu. Vill hann þar með árétta „sérstakt samband“ Breta og Bandaríkjamanna sem skipt hefur miklu fyrir báðar þjóðirnar og heimsbyggðina alla áratugum saman.

Að stjórnvöld Bretlands og Bandaríkjanna leggi áfram áherslu á þetta sérstaka samband er mikilvægt fyrir okkur Íslendinga, Norður-Atlantshafsþjóðina. Á örlagatíma í síðari heimsstyrjöldinni tóku Bandaríkjamenn við hlutverki af Bretum sem gæslumenn öryggis á Norður-Atlantshafi eins og staðfest var í júlí 1941 þegar bandaríski herinn tók við af þeim breska til varnar Íslandi.

Rofni náið samband Bandaríkjamanna og Breta kallar það á uppgjör í íslenskum utanríkis- og öryggismálum. Samvinna þjóðanna skiptir sköpum fyrir öryggi á Norður-Atlantshafi og þar með okkur Íslendinga.

Um þessar landfræðilegu og stjórnmálalegu staðreyndir verður ekki deilt hvað sem líður afstöðu manna til Donalds Trumps eða túlkun á yfirlýsingum hans um að hagsmunir Bandaríkjanna eigi að hafa forgang og að NATO sé „úrelt“. 

Umbrot í Hvíta húsinu

Flestir héldu að Trump mundi breyta um stíl út á við eftir að hann yrði forseti og hætta að nota Twitter til að hafa áhrif á umræður eða gang mála. Svo er ekki. 

Fyrsta heila dag sinn í embætti, laugardaginn 21. janúar, notaði Trump annars vegar til þess að tala sig í mjúkinn hjá starfsmönnum CIA, bandarískum njósnurum, sem hann sagðist styðja 1.000% og hann taldi að hefðu stutt sig í forsetakosningunum og hins vegar til að lýsa yfir stríði á hendur fjölmiðlamönnum, „óheiðarlegustu mönnum í jarðríki“ sem hann sagði að hefðu vísvitandi sagt rangt frá fjölda fólks við innsetningu sína.

Fréttirnar þennan laugardag voru í samræmi við harkalegan tón innsetningarræðunnar þar sem Trump fór hörðum orðum Washington-elítuna sem sat umhverfis hann og lofaði fólkinu fyrir framan sig að færa vald til þess frá fyrirmennunum.

Boðskapur Trumps var skýr: Bandaríkin verða númer eitt. Hagsmunir innlendra fyrirtækja og starfsmanna þeirra verða í fyrirrúmi. Frjáls verslun víkir fyrir bandarískum hagsmunum.

May vill viðskiptasamning

Megintilgangur fundar Theresu May með Trump er að leggja grunn að viðskiptasamningi ríkjanna sem gerður verði samhliða úrsögn Breta úr Evrópusambandinu. 

May kynnti þriðjudaginn 17. janúar samningsmarkmið sín gagnvart ESB í tengslum við úrsögn Breta úr sambandinu. Hún vill segja skilið við innri markað ESB enda verði bresk stjórnvöld að stýra þeim fjölda fólks sem komi til Bretlands frá Evrópu.

Innan bresku ríkisstjórnarinnar var vegna ESB-úrsagnarinnar tekist á um hvort farin yrði mjúk eða hörð leið úr sambandinu. Orðunum Global Britain, hnattrænt Bretland, var flaggað þegar Theresa May flutti ræðu sína 17. janúar. Globalistarnir sigruðu innan breska Íhaldsflokksins. 

Bretar verða ekki aðilar að EES-samningnum. Þeir vilja ekki aðild að innri markaðnum enda gerir hún ráð fyrir frjálsri för innan EES. 

Bretar hafa valið harða leið úr ESB. Hér á þessum stað var mælt með mjúku leiðinni: að Bretar gerðust aðilar að EFTA og að EES, innri markaðnum, og fengju undanþágu vegna frjálsrar farar í krafti öryggisákvæða í EES-samningnum eins og Liechtensteinar. 

Harða leiðin krefst meira af íslenskum samningamönnum en mjúka leiðin. Bretar vilja gera víðtækan fríverslunarsamning við ESB. Sambandið hefur tvíhliða samninga við Sviss sem það hefur viljað fella undir EES-skipulagið. Nú sækjast Bretar eftir svipaðri stöðu og Svisslendingar hafa. Innan ESB er tekist á um hvort sýna eigi Bretum vinsemd eða ólvild, Brusselmenn hallast að síðari kostinum, forystumenn einstakra ríkja eru mildari.

Fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna í Bretlandi 23. júní 2016 studdi Barack Obama Bandaríkjaforseti David Cameron, þáv. forsætisráðherra, og aðild Breta að ESB. Það yrði ekki forgangsverkefni Bandaríkjastjórnar að semja um viðskipti við Breta utan ESB. Bretar yrðu settir aftast eða aftarlega í röðina.

Anne Applebaum stjórnmálaskýrandi segir að menn handgengnir Trump telji að Brexit, ESB-úrsögn Breta, sé „eina utanríkismálið sem veki áhuga hans vegna þess að hann telji að þjóðaratkvæðagreiðslan í Bretlandi hafi rutt brautina fyrir sig. Hann vonist til að geta aðstoðað Breta við að yfirgefa ESB og hugsanlega skaða ESB með því að bjóða þeim viðskiptasamning“.

Nýskipan alþjóðamála

Í Bandaríkjunum segja menn Trumps að grunnurinn að Evrópusambandinu með Marshall-aðstoðinni fyrir 70 árum hafi tekið mið af stjórnmálum á þeim tíma. Nú séu nýir tímar. 

Þetta sama viðhorf á við um Alþjóðabankann, Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, Sameinuðu þjóðirnar og gagnkvæmu öryggistrygginguna í NATO. Hvaða alþjóðastofnanir standast breytingarnar sem Trump boðar? 

Málið snýst þó ekki einungis um framtíð þessara stofnana heldur einnig um það hvort slagorð Trumps um Bandaríkin í fyrsta sæti sé aðeins til heimabrúks. Með því að brjóta upp alþjóðakerfið, ráðast á elítuna þar, afsala Bandaríkjamenn sér alþjóðlega forystuhlutverkinu sem skipan heimsmála frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar hefur veitt þeim. 

Eitt fyrsta embættisverk Trumps var að draga Bandaríkin út úr samkomulagi ýmissa Kyrrahafsþjóða um fríverslun. Því er spáð að þetta verði til þess að auka enn ítök Kínverja á svæðinu. 

Kínverjar fögnuðu sigri Trumps yfir Hillary Clinton. Nú hafa þó runnið tvær grímur á þá vegna framgöngu Trumps frá 8. nóvember, símtals hans við forseta Tævans og yfirlýsinga gegn sókn Kínverja inn á Suður-Kínahaf.  Mánudaginn 23. janúar sagði Sean Spicer, talsmaður forsetans, að Bandaríkjastjórn mundi grípa til aðgerða til að tryggja að Kínverjar „leggi ekki undir sig alþjóðleg svæði“.

Rex Tillerson, utanríkisráðherraefni Trumps, hefur gengið á hólm við ráðamenn í Kína og líkt hernaðarumsvifum Kínverja í Suður-Kínahafi við innlimun Rússa á Krímskaga vorið 2014. Kínverski utanríkisráðherrann segir „óumdeilt“ að Suður-Kínahaf falli undir yfirráð Kínverja.

Allt er undir í hnattrænu reiptogi. Spenna á Suður-Kínahafi leiðir til óvissu á Norður-Atlantshafi.

Bindist Bretar og Bandaríkjamenn traustum böndum í anda nýrrar stefnu og þróunar í alþjóðamálum vilja þeir jafnframt að Norður-Atlantshaf verði áfram haf friðar og öryggis. Við Íslendingar njótum góðs af því, ekki síður nú en undanfarin 75 ár. Landafræðin breytist ekki og stjórnmálin taka óhjákvæmilega mið af henni.