28.1.2017 15:00

Laugardagur 28. 01. 17

Umræður um hvort heimila eigi þeim sem fara í aðgerð í Klínikinni í Ármúla að liggja inni í sjúkrarúmi í allt að fimm daga eftir aðgerð minna á það sem sagt var fyrir 20 árum þegar sett voru lög með heimild ríkisins til að greiða fyrir háskólamenntun í einkareknum háskólunum.

Sú skoðun er lífseig að á sumum sviðum sé best að ríkið skipti við sjálft sig þótt einkaaðilar geti veitt jafngóða eða betri þjónustu.

Innan háskólakerfisins var búið til reiknilíkan sem sýndi hvað kostaði að bjóða nemenda ákveðið nám og samþykkt að greiða þá fjárhæð til þess sem byði námið hvort sem um einkaaðila eða ríkisstofnun væri að ræða. Raunar hefði falist í því mikil mismunun að borgararnir yrðu verr settir að þessu leyti eftir því hvort þeir stunduðu nám í ríkisreknum eða einkareknum skóla.

Þá var einkareknum skólum veitt heimild til að innheimta skólagjöld. Þeir hafa sjálfir staðið undir fjárfestingum í húsakosti en Háskóli Íslands nýtur til dæmis góðs af einkarétti happdrættis HÍ til að reka peningahappdrætti.

Fjárhagslega umgjörðin er eitt og menn geta haft mismunandi skoðanir á henni. Hitt er ekki lengur ágreiningsefni að ákvarðanirnar um að svipta ríkið einokun á háskólastarfsemi reyndust farsælar og ólíklegt er að nokkru sinni verði snúið aftur til ríkiseinokunar á þessu sviði.

Í Klínikinni ætla menn meðal annars að skapa sér aukið svigrúm til að sinna þeim sem eru á biðlistum. Einkaaðilar veita nú þegar fjölbreytta þjónustu á þessu sviði og má þar til dæmis nefna skipti á augasteinum eða aðgerðir vegna axlarmeina. Fyrir þá sem þurfa á þjónustunni að halda er fagnaðarefni sé hún aukin.

Innan Háskóla Íslands fóru margir í varnarstöðu þegar Háskólinn í Reykjavík kom til sögunnar. Þegar HR tók að bjóða nám í lögfræði létu ýmsir eins og vá væri fyrir dyrum, einsleitni í menntun allra lögfræðinga tryggði best réttlætið. Þetta stóðst auðvitað ekki gagnrýni frekar en það stenst gagnrýni að Landspítalinn setji niður þótt menn njóti sérþekkingar lækna í einkareknum skurðstofum. Frjálsræði innan skilgreindra, lögbundinna marka kallar fleiri til starfa, þjónustan eykst, reynslan og þekkingin.

Að ákveða hvort aðili sem fullnægir öllum lagaskilyrðum fái að veita fólki þjónustu og stytta biðlista af meiri þunga en áður getur varla þvælst fyrir neinum hafi hann málefnaleg sjónarmið að leiðarljósi. Önnur afstaða stjórnvalds kann að valda skaðabótaskyldu.