25.1.2017 14:30

Miðvikudagur 25. 01. 17

Í kvöld klukkan 20.00 verður frumsýnt á ÍNN samtal mitt við Sigríði Andersen dómsmálaráðherra.

Augljóst er að stjórnarandstaðan á þingi lítur samkomulag þeim augum að samið skuli um það sem aðra varðar en ekki þegar kemur að henni sjálfri. Þetta er ekki nýtt á vettvangi stjórnmálanna en hefur nú leitt til þess að stjórnarandstæðingar eiga ekki neinn nefndarformann á alþingi. Þá er gripið til þeirra raka að það sé í bága við einhverja niðurstöðu á alþingi árið 2011 um ráðstafanir um bætta stjórnarhætti eftir hrun og veiki stöðu þingsins gagnvart framkvæmdavaldinu.

Að lokum ræður meirihluti alþingis hvort heldur í þingsalnum eða við atkvæðagreiðslu í nefndum hvað kemur frá alþingi. Hver skipar formennsku í nefnd þingsins breytir engu um það. Það ræðst ekki af því hvort stjórnarandstaðan á formann í nefnd hvernig þingstörfum miðar, meirihlutinn ræður ferðinni.

Eftir að hæstiréttur Bretlands sagði að bera ætti ákvörðun um að virkja 50. grein sáttmála ESB vegna úrsagnar Breta sá ég í fyrsta sinn minnst á hóp sem fylgir stefnu sem ég hef aðhyllst að Bretar ættu að gerast aðilar að EES-samningnum. Þessi hópur kallar sig Single Market Justice (SMJ) og 3. febrúar mun hann flytja mál sitt fyrir High Court í Bretlandi þar sem hann krefst úrskurðar dómara um að breska þingið verði að samþykkja sérstaklega úrsögn Breta úr EES-samstarfinu.

Lögfræðingar standa að SMJ og þeir telja ekki nóg að þingið ákveði hvort virkja eigi 50. gr. Þingið verði einnig að taka afstöðu til að virkja 127. gr. sáttmála ESB sem mæli fyrir um aðild Breta að innra markaði ESB sem Bretar kalla the single market. „Við eigum aðild að innri markaðnum sem er skilin frá ESB. Þingið greiddi atkvæði um aðild okkar að honum og verður einnig að greiða atkvæði um slit hennar.“ Breska stjórnin telur þetta óþarft, það nægi að segja skilið við ESB til að slíta EES-samstarfinu.

Lögfræðilegu deilunnar í Bretlandi vegna ESB-úrsagnarinnar eru skiljanlegar vegna þess að ESB-samstarfið sækir meiri styrk til lögfræðilegra ákvarðana en ákvarðana sem teknar eru á stjórnmálavettvangi. Vissulega taka stjórnmálamenn frumákvarðanir um að framselja fullveldi þjóða sinna til yfirríkjastofnunar en innan hennar ráða sáttmálar og samþykktir sem að lokum má fela dómurum að skýra og túlka án tillits til lýðræðislegs vilja. Þessi þróun er meginástæðan fyrir að Bretar ákváðu að segja skilið við ESB og taka málin í eigin hendur.