21.1.2017 17:30

Laugardagur 21. 01. 17

Viðtal mitt á ÍNN við Sigurð Yngva Kristinsson prófessor er komið á netið og má sjá það hér. Við ræðum um rannsókn sem Sigurður Yngvi stjórnar og snýst um blóðskimun 148.000 Íslendinga til að kanna leiðir í baráttunni við mergæxli. Þeir sem eru fæddir fyrir árið 1975 og hafa ekki fengið bréf með boði um þátttöku í þessu mikla átaki ættu að kynna sér málið á vefsíðunni www.blodskimun.is– mikið er í húfi.

Ræðan sem Donald J. Trump flutti þegar hann varð 45. forseti Bandaríkjanna var í sama dúr og ræða hans á flokksþingi repúblíkana. Honum er ekki sérstakt kappsmál að sameina þjóðina að baki sér heldur vill hann sýna að hann sé á móti elítunni í Washington, bjóði henni byrginn með því að tala máli almennings. Slagorðið Bandaríkin fyrst kynnti hann á þann hátt að ætla mætti að honum væri sama um allt annað en að sannfæra kjósendur sína um að hann geti með aðför að frjálsri verslun og alþjóðvæðingu gjörbreytt bandarísku atvinnulífi og lífskjörum verkamanna.

Boðskapur af þessu tagi er í ætt við það sem andstæðingar alþjóðlegra fríverslunarsamninga af vinstri kanti stjórnmálanna boða. Hér á landi má ætla að Ögmundur Jónasson, fyrrv. þingmaður og hugsjónaríkur vinstrisinni, ætli að helga sig baráttunni gegn frjálsum alþjóðaviðskiptum. Hann hlýtur því að fagna þjóðernissinnaðri stefnu Trumps.

Langt viðtal birtist við Ögmund í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 22. janúar þar sem hann tíundar pólitískar skoðanir sínar og hvernig hann ætlar að berjast fyrir framgangi þeirra þrátt fyrir brottför sína af alþingi. Í Morgunblaðinu eru forsetaskiptin í Bandaríkjunum og áhrif þeirra á varnarhagsmuni Íslands borin undir Silju Báru Ómarsdóttur, aðjunkt við Háskóla Íslands, sem er kunn fyrir að skoða heiminn frá feminískum sjónarhóli. 

Þótt skoðanir Ögmundar séu skyldar viðhorfi Trumps sýnist því ekki hampað sérstaklega í viðtalinu við hann. Í dag sameinuðust konur um allan heim og fóru í mótmælagöngur vegna valdatöku Trumps. Á þetta er ekki minnst í viðtalinu við Silju Báru heldur rætt um varnar- og öryggismál þar sem þekking hennar stendur greinilega ekki á djúpum grunni,