9.1.2017 14:00

Mánudagur 09. 01. 17

Spennandi er að fylgjast með bylgjunni sem fer nú frá fréttastofu ríkisútvarpsins um samfélagsmiðla yfir á Kjarnann og Stundina vegna stjórnarmyndunarinnar. Lokaskrefin verða stigin næstu klukkustundir í viðræðunum milli forystumanna Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Flokkarnir hafa boðað til funda í kvöld í stofnunum sínum sem verða að samþykkja aðild þeirra að ríkisstjórn.

Á þessari úrslitastundu er öllum spjótum andstæðinga þessa stjórnarsamstarfs beint að Bjarna Benediktssyni og fréttastofa ríkisins tekur eins og oft áður að sér að setja hulu hlutlægni yfir aðförina að Bjarna.

Undir liggjandi er sá áróður að Bjarni hafi vísvitandi ákveðið að leyna þing og þjóð skýrslu um aflandseignir á lokadögunum fyrir kjördag 29. október. Það hefur orðið til að hella olíu á áróðurseldinn að Bjarni hafði ekki á takteinum réttar dagsetningar um það hvenær honum var kynnt skýrslan í október 2016 þegar hann svaraði spurningum fréttamanns ríkisins um málið, nýkominn af þingflokksfundi um stjórnarmyndun í Valhöll laugardaginn 7. janúar. Hefur Bjarni beðist afsökunar á ónákvæmni sinni.

Vinstrisinnum var mikið í mun að fréttastofa ríkisútvarpsins léti málið til sín taka eins og sjá mátti á því sem Ingimar Karl Helgason, fyrrv. fréttamaður, skrifaði á FB-síðuna Fjölmiðlanördar. Má með sanni segja að farið hafi verið að hvatningu hans.

Frá 29. október 2016 til þessa dags hafa annarra flokka menn og fjölmiðlar á þeirra bandi verið á hjólum í kringum Bjarna Benediktsson í von um að hann stofnaði til stjórnarsamstarfs við þá, meira að segja Björn Valur Gíslason, varaformaður VG, hefur talað fyrir samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn.

Nú er þetta allt breytt. Um leið og spjótunum er beint harkalega að Bjarna er leitað að veikasta hlekknum meðal þingmanna sem styðja væntanlega ríkisstjórn. Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, er talinn þessi hlekkur.

Ríkissjónvarpsmaðurinn og álitsgjafinn Egill Helgason segir á vefsíðu sinni: „í rauninni gæti Óttarr þarna verið kominn með átyllu til að hætta við [stjórnarmyndun] ellegar bíða þangað til málið skýrist betur“. Þau kallast á Egill og Birgitta Jónsdóttir Pírati sem segir á FB-síðu sinni „held ég að hann [Óttarr] yrði samstundis að þjóðhetju ef hann myndi slíta sig frá Viðreisn og Sjálfstæðisflokknum“.

Gamall samfylkingar-bloggari, Gísli Baldvinsson, telur stríðið rétt að hefjast. Hann segir á Stundinni í dag: „Stórskotahríðin er eftir þegar málefnasamningur ríkisstjórnar verður kynntur. Hugsanlega loftárás einnig.“