3.1.2017 12:15

Þriðjudagur 03. 01. 17

Hér var því haldið fram í gær að gervifrétt hefði birst á forsíðu Fréttablaðsins þann dag um stjórnarmyndunarviðræður fulltrúa Sjálfstæðisflokks og Viðreisnar/Bjartrar framtíðar. Það leið ekki á löngu þar til réttmæti þessara orða voru staðfest með yfirlýsingu Bjarna Benediktssonar um að í fréttinni væri ranglega lýst niðurstöðum varðandi ESB-mál. Taldi ég þar með staðfest að um uppsuna hafi verið að ræða í Fréttablaðinu og sagði það á Facebook.

Margir létu orð falla af því tilefni og í gærkvöldi bættist Karl Pétur Jónsson, upplýsingafulltrúi Viðreisnar, í þann hóp og sagði:

„Hvernig getið þið Björn [og Gunnlaugur Snær Ólafsson, formaður utanríkismálanefndar Sjálfstæðisflokksins] verið svona vissir um að þessar upplýsingar komi frá Viðreisn eða BF? Mér finnst það býsna rösklega ályktað. Og hvers vegna ættu þessir tveir flokkar að segja fjölmiðlum ósatt um það sem fram fer milli þeirra í trúnaði við formann Sjálfstæðisflokksins?“

Björn Bjarnason:

Hafi Fréttablaðið ekki haft heimildarmann úr innsta kjarna Viðreisnar frekar en Bjartrar framtíðar fyrir forsíðufrétt sinni er blaðið verri heimild um stjórnmál en jafnvel ég ímyndaði mér. Karl Pétur Jónsson veit ef til vill meira um kröfur 365 til forsíðufrétta en ég.

Karl Pétur Jónsson

Þetta er ekki frá okkur komið. Þekki lítið til þess hvernig forsíðufréttir eru valdar á fréttastofu 365 eða hvaða kröfur þar eru gerðar til heimildamanna. Hitt er svo annað mál að þetta er ekki fyrsti rakalausi spuninn sem ég sé í fjölmiðlum um eftirmála kosninganna. Sá spuni hefur hinsvegar aldrei mér vitanlega stafað frá forystu flokkanna sjö, yfirleitt úr baklöndum þeirra.

Björn Bjarnason

Allir fjölmiðlar hafa stjórnast af þessari lygafrétt í dag og það er þó ekki fyrr en núna um kl. 22.00 sem upplýsingafulltrúi Viðreisnar kippir endanlega löppunun undan henni eftir gagnrýni mína. Hvers vegna hefur málið verið látið malla í allan dag?

Karl Pétur Jónsson

Góður punktur, Björn. Benedikt hefur reyndar borið þetta til baka í viðtölum, en hugsanlega hefði hann mátt vera afdráttarlausari.