23.1.2017 12:00

Mánudagur 23. 01. 17

 

Áður hefur verið vakið máls á því hér að stjórnmáladeilur í Bandaríkjunum vekja jafnvel heitari umræður hér á landi og kalla fram meiri dómhörku en menn beita gagnvart íslenskum stjórnmálamönnum. Hvort þetta er hluti af alþjóðavæðingunni eða stafar af sérstökum áhuga Íslendinga á því sem gerist í Bandaríkjunum hefur ef til vill verið rannsakað án þess að niðurstöður hafi verið kynntar á opinberum vettvangi.

Þessi áhugi á mönnum og málefnum í Bandaríkjunum er sérstaklega mikill núna þegar Donald Trump tekur við embætti forseta með bauki og bramli. Hann segir öllum ráðandi öflum stríð á hendur. Í sjónvarpsþætti í gær var leiðtogi repúblíkana í öldungadeild Bandaríkjaþings spurður hvernig honum hefði liðið að sitja á svölum þinghússins og hlusta á skammir Trumps um elítuna í Washington og að valdið yrði flutt frá henni til fólksins.

Þingmaðurinn sagði að sér hefði liðið vel. Hann hefði ekki tekið þetta til sín, hann hefði fengið endurnýjað umboð frá fólkinu í nýlegum kosningum. Hann væri með öðrum orðum fulltrúi þess en ekki hluti elítunnar þótt þingið sæti í Washington.

Daginn eftir harkalegu innsetningarræðuna gerði Trump harða hríð að fjölmiðlamönnum eins og minnst var á hér í gær. Talsmenn Trumps í sunnudags-umræðuþáttunum lentu í vandræðum þegar spurt var um hvernig sanna ætti að fleira fólk hefði verið á götum úti til að fagna innsetningu Trumps en Obama árið 2009.

Reine Priebus, liðsstjóri Trumps í Hvíta húsinu, varðist á þennan veg í þættinum Fox News Sunday: „Málið snýst ekki um mannfjöldann. Málið snýst um árásirnar og tilraunirnar til að grafa undan lögmæti forsetans strax á fyrsta degi – og við ætlum ekki að sitja undir þessu aðgerðalaus.“

Til marks um að standa yrði vörð um forsetann gagnvart fjölmiðlum nefndu málsvarar hans að hópi fjölmiðlamanna hefði verið hleypt inn í forsetaskrifstofuna til að mynda forsetann og verða vitni að honum við störf þar.

Þessi hópur miðlaði frásögnum til annarra fjölmiðlamanna. Fulltrúi Time vikuritsins í hópnum sagði ranglega að Trump hefði látið fjarlægja brjóstmynd af Martin Luther King jr. úr forsetaskrifstofunni. Síðar leiðrétti blaðamaðurinn frásögn sína með afsökun en þá hafði hún borist til 3.000 annarra miðla að sögn talsmanna Trumps.

Þetta atvik notuðu talsmenn Trumps sér til varnar. Hve þeir voru samstiga og einarðir sýnir að hart verður barist. Spurning er hvort báðar hliðar birtist  hér á landi, áhugamönnum um bandarísk stjórnmál til upplyftingar.