8.1.2017 11:15

Sunnudagur 08. 01. 17

Stjórnmálaumræður í Bretlandi hafa jafnan haft mikil áhrif hér á landi og einnig stefnumótun stjórnmálaflokka þar. Löngum hafa Sjálfstæðismenn til dæmis verið sagðir aðhyllast Thatcherisma.

Innan Samfylkingarinnar hreyktu ýmsir forystumenn sér af því að vera félagar í breska Verkamannaflokknum. Hann man nú sinn fífil fegri eins og Samfylkingin. Báðir flokkarnir töpuðu áttum, meðal annars vegna þess hvernig Tony Blair, sigursæli foringi Verkamannaflokksins hélt á málum og sigraði hvað eftir annað í kosningum.

Theresa May, varð forsætisráðherra og leiðtogi Íhaldsflokksins, með skömmum fyrirvara eftir að David Cameron sagði af sér vegna ósigursins í Brexit-atkvæðagreiðslunni 23. júní 2016. Hún á fullt í fangi með að leiða Breta út úr ESB en hefur þó gefið sér tíma til að móta nýja stefnu sem hún kennir við shared society sem þýða má með orðunum „sameiginlegt samfélag“.

Kynnir hún þessa stefnu í The Telegraph í dag og segir að ríkisvaldinu sé skylt að grípa inn í og leiðrétta „hróplegt óréttlæti“ í Bretlandi. Hún segir að ríkisvaldið eigi ekki „að halda sér til hlés“ og áréttar að „lífið [snúist] um meira en einstaklingshyggju og sérhagsmuni“.

Ben Riley-Smith, aðstoðar-stjórnmálaritstjóri The Telegraph segir að í grein May lýsi hún nánar en nokkru sinni frá því að hún varð forsætisráðherra hvað fyrir henni vaki við mótun samfélagsins og að greinin sýni einnig staðfastan vilja hennar til að marka skil á milli sín og forvera hennar í leiðtogasæti Íhaldsflokksins.

Hann minnir á að David Cameron hafi talað um big society þar sem gert var ráð fyrir að góðgerðasamtök veittu aðstoð sína við að minnka ójafnrétti. Margaret Thatcher hefði hins vegar sagt að „ekki [væri] til neitt samfélag“. May hafni þessum skoðunum Camerons og Thatcher. Í stað þess færi hún skýlaus rök fyrir því hvers vegna ríkisvaldið eigi að láta að sér kveða sé vegið að hag neytenda á mörkuðunum.

Ben Riley-Smith segir að litið verði á grein forsætisráðherrans sem fráhvarf frá hugmyndafræðinni sem breskir íhaldsmenn hafi fylgt í áratugi og reist sé á þeirri skoðun að besta leiðin til að aðstoða þá verst settu sé að stuðla að hagvexti í krafti frjálsra markaða. Þá bendi greinin einnig til þess að fyrir May vaki að endurskilgreina Íhaldsflokkinn sem flokk „vinnandi stétta“ og skipa Verkamannaflokknum út í horn í augum kjósenda.

Þetta eru vissulega söguleg þáttaskil innan breska Íhaldsflokksins. Verður spennandi að fylgjast með umræðunum innan flokksins og í bresku samfélagi.