14.1.2017 18:00

Laugardagur 14. 01. 17

Samtal mitt við Margréti Hallgrímsdóttur þjóðminjavörð á ÍNN 11. janúar er komið á netið eins og sjá má hér.

Fréttin (sjá hér) um að varnarmálaráðherra Danmerkur telji hættu á að ríkisstyrktir rússneskir tölvuþrjótar kunni að brjótast inn í tölvukerfi sjúkrahúsa eða heilbrigðismála í Danmörku til að skapa ótta, öryggisleysi eða vantrú í garð stjórnvalda og vega þannig að lýðræðislegum stjórnarháttum er verð umhugsunar.

Ekkert innviðakerfi samfélaga er viðkvæmara en heilbrigðiskerfið. Þess vegna verða oft miklar umræður um það á stjórnmálavettvangi. Við sjáum það til dæmis núna við valdaskiptin í Bandaríkjunum. Repúblíkanar gera aðför að breytingunum sem Barack Obama beitti sér fyrir á heilbrigðiskerfinu og vilja með tafarlausum breytingum sanna fyrir almenningi að þeir standi við loforð sín.

Færa má rök fyrir að hér hafi verið sótt að stjórnvöldum með áður óþekktum aðferðum fyrir kosningar til að knýja á um mikilvægi heilbrigðismála og fjárveitingar til þeirra. Safnað var undirskriftum undir kröfu um að alþingi verði „árlega 11% af vergri landsframleiðslu til reksturs heilbrigðiskerfisins“.

Undirskriftunum (86.761) var skilað 30. apríl 2016 og í krafti þeirra sótti upphafsmaðurinn, Kári Stefánsson, hart að fjármálaráðherra í aðdraganda kosninganna 29. október. Aðfinnslum Kára var ekki ætlað að auka traust á stjórnvöldum og aðferðin bar þess merki að beita þyrfti öðru en hefðbundnum lýðræðislegum aðferðum í kosningabaráttu til að bjarga heilbrigðiskerfinu.

Í tengslum við undirskriftasöfnunina var efnt til fjölmiðlaherferðar þar sem frásagnir um afleiðingar fjárskorts innan heilbrigðiskerfisins vöktu gagnrýni í garð ríkisstjórnar og meirihluta fjárveitingarvaldsins.

Hér hefur áður verið vakið máls á að stundum sé engu líkara en fréttahallæri á ríkisútvarpinu sé bjargað með símtali í einhvern starfsmann Landspítalans sem segi veruleg vandræði af einni ástæðu eða annarri. Þar með sé fréttatímanum bjargað og höggi auk þess komið á ríkisstjórnina.

Eitt er að tekist sé á um heilbrigðismál á innlendum, pólitískum forsendum. Annað ef það gerist sem danski varnarmálaráðherrann nefnir að tölvuþrjótar með tilstyrk rússneska ríkisins ráðist til atlögu í því skyni að upplausn innan heilbrigðiskerfisins leiði til upplausnar í samfélaginu og veiki trú á stjórn þess. Að slíkt gerist er örugglega fjarlægt í huga allra almennra borgara. Dönum hefur þó verið birt viðvörunina og greinilega getur allt gerst í netheimum.