20.1.2017 10:45

Föstudagur 20. 01. 17

Donald Trump verður 45. forseti Bandaríkjanna í dag. Þetta er í raun ótrúleg staðreynd, að minnsta kosti í augum okkar sem töldum að framboð hans innan flokks repúblíkana væri vonlaust frá upphafi og yrði hann valinn mundi Hillary Clinton mala hann í sjálfum kosningunum 8. nóvember 2016. Að hafa svona herfilega rangt fyrir sér um þetta er eins og hvert annað hundsbit. Úr því að bandarískir kjósendur treystu honum manna best til að veita sér forystu verður að taka því af karlmennsku og vona hið besta.

Margt af því sem Trump segir setur menn úr jafnvægi. Nú herma fréttir til dæmis að þingmenn á ESB-þinginu krefjist þess að af hálfu Evrópusambandsins verði flutt opinber, formleg mótmæli við sendiherra Bandaríkjanna vegna þess hve illa Trump talar um sambandið og framtíð þess. Hann telur ESB í raun dauðadæmt verði haldið áfram á sömu braut.

Í fréttum um þessa kröfu er þess síðan getið að frá og með 20. janúar sé Anthony Gardner, sendiherra Bandaríkjanna gagnvart ESB, sviptur embætti sínu og sama sé að segja um sendiherra Bandaríkjanna gagnvart NATO. Báðir eru það sem kallað er „pólitískt skipaðir“, það er valdir í há embætti sín án þess að hafa starfað innan bandarísku utanríkisþjónustunnar og risið þar stig af stigi til meiri metorða.

Donald Trump gaf skilyrðislaus fyrirmæli um embættismissi allra „pólitískt skipaðra“ sendiherra frá og með 20. janúar. Ná fyrirmælin meðal annars til Roberts C. Barbers sem verið hefur farsæll sendiherra Bandaríkjanna hér á landi frá 8. janúar 2015. Hann var kvaddur með móttöku í bandaríska sendiráðinu þriðjudaginn 17. janúar. Þegar hann flutti kveðjuræðu sína fór ekki framhjá neinum að hann bar heitar tilfinningar til lands og þjóðar og hafði notið þess að starfa í þjónustu stjórnar sinnar hér.

Nokkurt uppnám hefur orðið í Danmörku eftir breytingar á ríkisstjórninni þar fyrir um það bil tveimur mánuðum. Bertel Haarder (72 ára), þingmaður Venstre-flokksins, var settur af sem ráðherra eftir að hafa gegnt ráðherraembætti einna lengst allra Dana. Flokksbróðir hans, Lars Løkke Rasmussen forsætisráðherra, vildi bæta honum ráðherramissinn með því að gera Haarder að aðalræðismanni meðal danska minnihlutans í Flensborg í Slesvík-Holstein. Þessi „pólitíska skipun“ mæltist svo illa fyrir að Haarder gaf ekki kost á sér í embættið og hefur hún vakið töluverðar umræður um skipun stjórnmálamanna í embætti sendiherra. Sjónarmið í þeim umræðum eiga erindi hingað til lands.