Þriðjudagur 17. 01. 17
Theresa May, forsætisráðherra Breta, kynnti í dag samningsmarkmið sín gagnvart ESB í tengslum við úrsögn Breta úr sambandinu. Hún kynnti 12 punkta markmið. Eitt er að segja skilið við innri markað ESB, annað að Bretar verði að stýra þeim fjölda fólks sem koma til Bretlands frá Evrópu.
Í þessu felst að Bretar verða ekki aðilar að EES-samningnum. Þeir vilja ekki aðild að innri markaðnum enda gerir hún ráð fyrir frjálsri för innan EES.
Í þessu felst að EFTA kann að gera fríverslunarsamning við Breta eða ríkin innan EFTA (Ísland, Liechtenstein, Noregur og Sviss) semja hvert um sig við Breta.
Fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna í Bretlandi 23. júní 2016 þegar Barack Obama Bandaríkjaforseti studdi David Cameron, þáv. forsætisráðherra, og aðild Breta að ESB gaf hann til kynna að það yrði ekki forgangsverkefni Bandaríkjastjórnar að semja um viðskipti við Breta utan ESB.
Donald Trump, verðandi Bandaríkjaforseti, fagnar úrsögn Breta úr ESB og segir að það verði forgangsmál hjá sér að hitta Theresu May og gera viðskiptasamning við Breta utan ESB. Vakti May máls á þessari stefnubreytingu Bandaríkjamanna undir forystu Trumps í ræðu sinni.
Lilja D. Alfreðsdóttir, fyrrv. utanríkisráðherra, fól Gunnari Snorra Gunnarssyni sendiherra að leiða starf innan utanríkisráðuneytisins gagnvart Bretum og ESB auk EFTA-ríkjanna vegna úrsagnar Breta.
Í hálft ár hafa menn velt fyrir sér hvaða leið Bretar ætli að velja, mjúka eða harða leið úr ESB. Ég hef mælt með mjúku leiðinni: að Bretar gerist aðilar að EFTA og að EES, innri markaðnum, og fái undanþágu vegna frjálsrar farar í krafti öryggisákvæða í EES-samningnum eins og Liechtensteinar. May velur hörðu leiðina, stöðu utan innri markaðarins.
Harða leiðin krefst meira af íslenskum samningamönnum en mjúka leiðin. Bretar vilja gera víðtækan fríverslunarsamning við ESB. Sambandið hefur gert tvíhliða samninga við Sviss, samninga sem það hefur viljað fella undir EES-skipulagið. Nú sækjast Bretar eftir svipaðri stöðu og Svisslendingar hafa. Spurning er hvort þessi þróun breytir afstöðu ESB til EES-samningsins.
Viðbrögð ráðgjafa Angelu Merkel var að Bretar gætu ekki nálgast ESB með því hugarfari að tína aðeins rúsínurnar úr bollunni. Þeir yrðu að taka hana alla. Þetta er hefðbundin afstaða af hálfu ESB. David Davis, ráðherra úrsagnarmála í bresku stjórninni, sagði á þingi eftir ræðu May að Bretar ætluðu ekki að tína rúsínur, þeir vildu semja, tækist það ekki yrðu þeir að sætta sig við það.