31.1.2017 14:00

Þriðjudagur 31. 01. 17

 

Um þessar mundir eru 22 ár frá því að vefsíðan bjorn.is fór í loftið en þar hefur hún verið frá janúar/febrúar 1995. Örugglega ein af fáum vefsíðum sem nú kallast líka blogg-síður sem hefur lifað samfellt svo lengi og er þá vísað til mannkynssögunnar, hvorki meira né minna.

Í nóvember 2002 tók Hugsmiðjan að sér að endurhanna síðuna og setja hana í eplica-forrit sitt. Hefur hún haldist í megindráttum óbreytt í 14 ár. Í morgun fór ég hins vegar á fund í Hugsmiðjunni til að ræða uppfærslu á síðunni og breytingar á útliti hennar og viðmóti. Ég vil að tæknilega sé síðan í eins góðri umgjörð og verða má.

Það kemur í ljós hvort ég breyti efnisskipan á síðunni við þessa uppfærslu. Að ég skrifi pistla á síðuna eða sendi efni á póstlista minn heyrir nú til undantekninga. Dagbókin og efnisþátturinn Ræður og greinar eru lifandi hlutar síðunnar núna. Hvað verður kemur í ljós.

Eitt er að berjast á móti Donald Trump. Annað að láta hann rugla sig algjörlega í ríminu. Jónas Kristjánsson, fyrrv. ritstjóri, heldur úti bloggi þar sem hann skeytir skapi sínu á mönnum og málefnum. Í dag segir hann meðal annars:

„Þegar við dissum Trump fyrir að fangelsa flugfarþega, skulum við muna, að hann er að stæla Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmála. Sá fangelsaði ólöglega hóp af friðarsinnum, svonefnda Falun Gong og rak úr landi. Enn er Trump ekki verri en Björn, hvað sem síðar verður.“

Jónas vísar hér til atburða sem gerðust árið 2002 þegar forseti Kína kom hingað í opinbera heimsókn. Jónas heldur líklega að ég hafi verið dómsmálaráðherra þá sem ég var ekki og sat ekki einu sinni í ríkisstjórn, raunar gagnrýndi ég hvernig tekið var á Falun gong fólki þótt ég sé alls ekki hlynntur aðferðum þess.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Jónas tapar dómgreindinni þegar hann ræðst að einstaklingum. Ég veit hins vegar ekki til þess að hann leiðrétti vitleysuna eða biðjist afsökunar á henni.

Ég vakti máls á þessari marklausu gagnrýni Jónasar á Facebook-síðu minni í dag. Það er einkennileg árátta að reyna að troða Trump í félagsskap með mönnum hér á landi sem hafa margsinnis lýst skömm á honum, framkomu hans og vinnubrögðum. Því miður hefur ekki reynst rétt sem margir vonuðu að forsetambættið og Hvíta húsið hefðu róandi áhrif á hann.