5.1.2017 14:00

Fimmtudagur 05. 01. 17

Nú er samtal mitt við Pétur Einarsson um mynd hans Ránsfeng sem verður sýnd í ríkissjónvarpinu á sunnudag kl. 20.00 komið á netið og má sjá það hér.

Þegar menn vita ekki alveg hvort eða hvenær þeir ná landi í viðræðum orða þeir stöðuna gjarnan svona: „Þetta hefur gengið alveg ágætlega þótt hægt hafi miðað. Við höfum alltaf verið að tomma þetta áfram.“ Nota má þessa setningu til að lýsa stöðunni í viðræðunum núna þar sem forystumenn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar hittast dag eftir dag til að ræða stjórnamyndun undir forsæti Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins.

Megi marka fréttir hefur Bjarna tekist að sigla viðræðunum fram hjá skerjum eða þeim hefur verið rutt úr leið. Þrátt fyrir það er töluverð vinna enn óunnin og ekki hefur verið tekið til við að ræða skiptingu ráðherraembætta milli flokkanna.

Fréttablaðið er notað eins og áður til að leka óskum viðmælenda Bjarna. Blaðið gengur að því sem vísu í dag að ráðherrar verði 10, Sjálfstæðisflokkur fái fimm ráðherra, Viðreisn þrjá og Björt framtíð tvo. Í lok fréttar blaðsins segir:

„Heimildir Fréttablaðsins herma að formaður Viðreisnar, Benedikt Jóhannesson, sækist af ákafa eftir fjármálaráðuneytinu. Heimildir Fréttablaðsins herma jafnframt að Þorsteinn Víglundsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmenn flokksins, sækist líka eftir ráðherraembættum af fullum þunga. Þó sé ekki útilokað að Hanna Katrín Friðriksson hljóti eitt af þessum þremur ráðherraembættum.“

Enn á ný er augljóst að ónafngreindur heimildarmaður blaðsins stendur nærri Viðreisn og segir fréttir af því hvernig menn í forystusveit flokksins hugsa. Í hádegisfréttum ríkisútvarpsins var rætt við Benedikt Jóhannesson, formann Viðreisnar, og á ruv.is er sagt frá samtalinu meðal annars með þessum orðum:

„Hann [Benedikt] segir að þótt viðræðurnar séu komnar langt þá sé ekki hægt að slá neinu föstu. „Já eins og ég hef sagt oft áður, þetta er ekki alveg búið fyrr en það er búið. Á meðan við færumst í rétta átt, þá er maður bjartsýnn.“ Hann segir að skipting ráðuneyta hafi verið rædd en ekki sé búið að ljúka þeim málum.“

Það er sem sagt ekki hægt að „slá neinu föstu“. Margt bendir til þess að daglegar yfirlýsingar forystumanna Viðreisnar og Bjartrar framtíðar séu að verulegu leyti reistar á óskhyggju. Það ríki í raun meiri óvissa um þetta allt en við blasir í fréttum.  Í sjálfu sér þarf enginn að undrast það, líf stjórnar af þessu tagi hangir aðeins á afstöðu eins þingmanns einhvers þingflokkanna þriggja.