26.1.2017 14:00

Fimmtudagur 26. 01. 17

Viðtal mitt við Sigríði Andersen dómsmálaráðherra á ÍNN er komið á netið og má sjá það hér. 

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra mælti í dag fyrir tillögu til ályktunar á alþingi um að til sögunnar kæmi dómsmálaráðuneyti að nýju með því að skipta málaflokkum innanríkisráðuneytisins milli þess og annars vegar og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis hins vegar. Þetta er tímabær breyting og í raun nauðsynleg leiðrétting vegna þess skemmdarverks sem var unnið undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar á árinu 2010 þegar ákveðið var að setja innanríkisráðuneytið á fót, það tók til starfa 1. janúar 2011.

Í ár eru 100 ár frá því að embætti dómsmálaráðherra var stofnað hér á landi við myndun ráðuneytis Jóns Magnússonar árið 1917. Er vel við hæfi að fagna afmælinu með að endurreisa þetta embættisheiti innan stjórnarráðsins og koma að nýju á sjálfstæðu dómsmálaráðuneyti með eigin ráðuneytisstjóra, embættismönnum og sérfræðingum. Dómstólar eru þriðja stoð ríkisvaldsins og alls staðar í réttarríkjum er sérstakt ráðuneyti vegna þessa mikilvæga þáttar.

Í greinargerð með þingsályktunartillögu forsætisráðherra segir meðal annars:

„Markmiðið með stofnun dómsmálaráðuneytis annars vegar og samgöngu- og sveitar- stjórnarráðuneytis hins vegar er fyrst og fremst að skýra verkaskiptingu innan Stjórnarráðsins og skerpa þar með hina pólitísku forystu í málaflokkum sem undir hvort ráðuneytið falla. Með sameiningu ráðuneytanna á sínum tíma voru gríðarlega viðamikil og ólík stjórnarmálefni færð undir eitt og sama fagráðuneytið. Með því að skipta innanríkisráðuneytinu að nýju upp í tvö ráðuneyti má tryggja markvissari forystu í málaflokkum hvors ráðuneytis um sig og gera ráðuneytunum þannig betur fært að sinna þeim umfangsmiklu lögbundnu verkefnum sem nú heyra undir innanríkisráðuneytið. Breytingin stuðlar einnig að aukinni sérþekkingu á þeim málefnasviðum sem um ræðir og skarpari stefnumótun.“

Allt er þetta rétt. Ekki kemur á óvart að tveir þingmenn vinstri-grænna (VG), Steingrímur J. Sigfússon og Svandís Svavarsdóttur mæltu gegn tillögu forsætisráðherra og báru einkum fyrir sig að útgjöld mundu aukast. Að sparnaður hafi orðið í ríkisrekstri við breytingar Jóhönnu á stjórnarráðinu má draga mjög í efa.

Þau Steingrímur J. og Svandís átta sig á að með markvissari forystu í málefnum lögreglu og landhelgisgæslu er líklegt að þessir innviðaþættir styrkist og eflist. Lögreglan hefur löngum verið þyrnir í augum þeirra pólitísku afla sem standa að baki þessum þingmönnum VG. Það er einskonar pólitískur kjækur hjá þeim að mótmæla alltaf ef hugað er að eflingu löggæslu.