Laugardagur 07. 01. 17
Nú liggur fyrir skýrsla um hvernig háttað hefur verið flutningi fjár frá Íslandi til aflandsfélaga. Bjarni Benediktsson lét vinna þessa skýrslu á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Ákveðið var að birta skýrsluna eftir að nýtt þing kom saman enda eru ábendingar í henni um breytingar sem er á valdi alþingis að gera. Það er pólitískt umkvörtunarefni á vefsíðunni Kjarninn.is að skýrslan hafi ekki verið birt fyrir kosningarnar 29. október en breytir engu um efni málsins.
Skýrslan sem er 50 bls. að lengd ber með sér að á fyrsta áratug aldarinnar hafi risavaxin bylgja „aflandsvæðingar“ gengið yfir. Varla kemur það nokkrum á óvart miðað við þjónustuna sem íslenska bankakerfið veitti á þessum tíma til að auðvelda mönnum að flytja fé til útlanda.
Fram kemur að erfitt er að greina þetta allt og telur starfshópurinn þörf á frekari rannsóknum til þess að unnt sé að átta sig á uppruna aflandsfjárins til hlítar.
Tölurnar sem þarna eru nefndar til sögunnar eru í raun smáræði við tölurnar sem kröfuhafarnir höfðu úr landi á grundvelli leyni-einkavæðingarnar sem hér varð vorið 2009 á vegum ríkisins og beinlínis fyrir tilstuðlan þess. Kröfuhafarnir sem komu þar að málum eru taldir hafa haft allt að 2.500 milljörðum króna upp úr krafsinu. Segir Pétur Einarsson, höfundur kvikmyndarinnar Ránsfengur, í viðtali við mig á ÍNN, sem sjá má hér, að þetta verði aldrei upplýst, þetta hafi gerst „algjörlega á bak við tjöldin“, vogunarsjóðirnir sem þarna áttu hlut að máli séu „svarthol“ og bætir við (útskrift Reykjavíkurbréfs Morgunblaðsins):
„Til þess að eiga banka, þá þarftu að vera viðurkenndur af Fjármálaeftirlitinu. Og við gerum strax eftir hrun stærstu undanþágu sem er hægt að gera varðandi fjármálakerfið, það er það að vita ekki almennilega hverjir eiga bankana. Og það er fyrir mér líka gríðarleg mistök og ég er bara alls ekki sáttur við sem Íslendingur og sem fyrrverandi bankamaður. Vegna þess að það eru ákveðnar reglur sem eru hér og alls staðar í heiminum, varðandi eignarhald á bönkum, og við eigum auðvitað að fylgja þeim.“
Þegar vakið er máls á að komast þurfi til botns í þessu stóra máli leggja álitsgjafarnir sem telja sig hafa mátt til að knýja fram rannsóknir eða birtingu á skýrslum á flótta. Hvers vegna? Hér varð hrun er setningin sem stjórnarherrar notuðu fyrir misráðnum ákvörðunum árin 2009 til 2013. Setningin skýldi ákvörðunum sem hafa ekki enn verið skýrðar. Hvers vegna?