15.1.2017 14:15

Sunnudagur 15. 01. 17

Á ruv.is mátti lesa laugardaginn 14. janúar:

„Hælisumsóknum á síðasta ári fjölgaði um 220% frá árinu 2015. Langflestir umsækjendur koma frá Makedóníu og Albaníu, en þeir fá ekki hæli hér á landi þar sem löndin flokkast sem örugg ríki.

Aldrei hafa jafn margir sótt um hæli hér á landi og í fyrra eða 1132. Það er nærri þreföld aukning frá 2015, þegar 354 sóttu um hæli hér á landi. Langflestir hælisleitendur í fyrra eru Makedónar eða 467. Flestir sóttu um hæli í nóvember eða 187, en 63 í desember. Árið 2015 voru hælisleitendur frá Makedóníu ekki nema 27 og voru því umsækjendur frá Makedóníu um sextánfalt fleiri í fyrra en árið 2015.

Næstflestir hælisleitendur í fyrra komu frá Albaníu. Þá sótti 231 Albani um hæli hér á landi, samanborið við 108 árið 2015.“

Þessi þróun hefur ekki orðið fyrir tilviljun. Hana má rekja til þess að fyrir jól 2015 tóku alþingismenn þá sérkennilegu ákvörðun að hafa niðurstöðu útlendingastofnunar um brottvísun fjölskyldu frá Albaníu að engu og veita henni ríkisborgararétt. Þá var fullyrt að þetta yrði ekki fordæmi. Hvað sem þeim fullyrðingum leið hefur ákvörðunin dregið þann dilk á eftir sér sem birtist í tölunum hér að ofan.

Hér hefur verið bent á að tilgangur þeirra sem koma hingað frá Makedóníu og Albaníu sem hælisleitendur sé þríþættur: 1. Að dveljast hér að minnsta kosti í þrjá mánuði á kostnað ríkisins. 2. Að stunda svarta vinnu. 3. Að njóta íslenskrar heilbrigðisþjónustu.

Tregða er til að ræða þessi mál á opinberum vettvangi eins og ber að gera. Ættu Íslendingar í hlut og reyndu þannig skipulega að hafa fé út úr íslenska ríkinu á ólögmætan hátt eða stunda svarta vinnu yrði þess strax krafist að gripið yrði til viðeigandi ráðstafana til að stöðva svindlið. Í tilviki Makedóníumannanna og Albanana er staðið þannig að málum að fjárveitingar eru auknar með því að fara dýpra í vasa skattgreiðenda. Meira að segja er reynt að koma rasistastimpli á þá sem benda á ósómann.

Á miðvikudögum og sunnudögum kemur hingað til lands flugvél Wizz-air frá Búdapest. Eftir komu þessarar vélar fjölgar hælisleitendum frá Makedóníu og Albaníu gjarnan hér á landi. Spurning vaknar hvers vegna ekki er samið við ungversk stjórnvöld um ráð til þess að benda þessu farandfólki á að það sé til einskis að ætla sér að sækja um hæli á Íslandi.