Föstudagur 13. 01. 17
Fylgt hefur verið markvissri stefnu í heilbrigðismálum undanfarin ár sem felur í sér að allir landsmenn eigi rétt til tafarlausrar bestu þjónustu á Landspítalanum. Til þess að framkvæma stefnuna hefur verið lögð áhersla á að bæta sjúkraflutninga til Reykjavíkur. Í því tilliti gegnir sjúkraflug lykilhlutverki fyrir mög byggðarlög.
Í dag birtist ályktun sveitarstjórna Langanesbyggðar sem harmar eindregið ákvörðun borgarstjórnar Reykjavíkur um lokun suðvesturbrautarinnar á Reykjavíkurflugvelli, svonefndri neyðarbraut. Telur sveitarstjórnin að sú ákvörðun hafi grafalvarlegar afleiðingar. Aldrei megi gleyma að það sé „sameiginleg ábyrgð allrar þjóðarinnar að öryggi og heilsu íbúa landsins sé ekki stefnt í tvísýnu.“ Lokun flugbrautarinnar sé ekki einkamál borgarstjórnar Reykjavíkur, því flugvöllurinn í Vatnsmýrinni sé mikilvægasta samgöngumannvirki þjóðarinnar.
Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra ber lokaábyrgð á pólitískum vettvangi á framkvæmd heilbrigðisstefnunnar. Beiti hann sér ekki gegn hindrunum sem reistar eru gegn framkvæmd stefnunnar bregst hann skyldum sínum.
Óttarr á flokksbræður í meirihluta borgarstjórnar Reykjavíkur þar sem hann sat sjálfur á sínum tíma og studdi Jón Gnarr sem borgarstjóra. Óttarr hefur því tök á að beita sér pólitískt í flugvallarmálinu á annan veg en aðrir ráðherrar í ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar.
Væri lögð hindrun á leið sjúkrabifreiðar á sjúkrahús er öllum ljóst að tafarlaust yrði gripið til ráðstafana í því skyni að ryðja henni úr vegi. Allir vegfarendur vita að sjúkrabílar njóta forgangs í umferðinni og öllum ber að víkja til hliðar til að tryggja hindrunarlausa för þeirra. Gildir annað um sjúkraflugvélar?
Þeir sem standa í vegi fyrir að sjúkraflugvélar geti notað allar brautir Reykjavíkurflugvallar eru í sömu sporum og þeir sem leggja stein í götu sjúkrabíls.
Í stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar kemur fram að hún ætli að beita sér fyrir lausn á deilunni um framtíð Reykjavíkurflugvallar með því að stofna til formlegra viðræðna samgönguyfirvalda, heilbrigðisyfirvalda, Reykjavíkurborgar, annarra sveitarfélaga og hagsmunaaðila.
Bjarni Benediktsson sagði á alþingi mánudaginn 10. október 2016 að hann hefði fengið skýrslu sem hann bað um sem fjármálaráðherra um flutning fjár á aflandsreikninga. Hann sagðist ætla að leggja hana fram. Þingi lauk 13. október 2016 og kosið var til nýs þings 29. október 2016. Nú hefur skýrslan verið birt og dagsett í janúar 2017, í útgáfumánuðinum.
Rannsóknarblaðamaður Stundarinnar fann út að „hvíttað“ hefði verið yfir útgáfumánuð í september og gert þar tortryggilegt í „lærðri“ grein sem reynist vitleysa. Fjármálaráðuneytið hefur tekið af skarið að ekki var „hvíttað“ yfir neitt, sjá hér.