19.1.2017 11:00

Fimmtudagur 19. 01. 17

Myndin skýrist af því sem gerðist snemma morguns laugardaginn 14. janúar í tengslum við hvarf Birnu Brjánsdóttur sem sást síðast á ferli á Laugaveginum í Reykjavík.

Lögregla hefur meðal annars stuðst við myndir úr eftirlitsmyndavélum. Myndirnar eru ekki nægilega skýrar til að greina bílnúmer og varð lögregla því að nota útilokunaraðferð til að finna þann rauða bíl sem hún taldi tengjast málinu. Það tókst og beindi bíllinn athygli lögreglu að skipverjum grænlensks togara sem lét úr Hafnarfjarðarhöfn á laugardagskvöld.

Dönsku herskipi var siglt í átt til togarans með íslenska lögreglumenn sem fluttir voru með þyrlu um borð í það. Síðan var þyrla landhelgisgæslunnar hins vegar notuð til að senda íslenska sérsveitarmenn beint um borð í togarann, höfðu eigendur hans gefið skipstjóra fyrirmæli um að snúa að nýju til Íslands. Lögregla yfirheyrði þrjá skipverja aðfaranótt fimmtudags 19. janúar.

Samhliða þessu hafa fjölmennir leitarhópar björgunarsveitanna leitað að Birnu bæði í sjó og á landi.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu undir stjórn Gríms Grímssonar yfirlögregluþjóns hefur skipulagt og stjórnað þessari umfangsmiklu aðgerð af fumleysi undir þungu álagi vegna atburðarins sjálfs, áhuga allrar þjóðarinnar og ágengni fjölmiðla. Hefur enn sannast hve unnt er að virkja marga til skipulegra aðgerða þegar þörf krefst.

Lögreglan hefur gengið fram af varúð og virðingu og haldið á miðlun upplýsinga á þann veg að engu sé spillt vegna ógætilegra aðgerða.

Í ljósi þessarar varkárni lögreglu vekur athygli hve fljótt Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna, fellir þann dóm að peningaleysi lögreglunnar hafi tafið fyrir félagsmönnum hans við störf þeirra. Hann segir fimmtudaginn 19. janúar á vefsíðunni visir.is:

„Fjárhagsstaðan hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu er slík að það er útilokað að það sé búið að bæta við eða endurnýja þær [eftirlitsmynda]vélar sem eru uppi. Þetta eru vélar sem voru settar upp í samvinnu við Reykjavíkurborg árið 1997 og þetta voru og eru enn miklir hlunkar.“

Er málum farið á þennan veg? Á mbl.is má lesa frétt frá 24. maí 2012 um að borgarráð hafi þann sama dag samþykkt að kaupa 12 eftirlitsmyndavélar til nota í miðborg Reykjavíkur, Neyðarlínan sjái um uppsetningu, viðhald og flutning merkis en lögregla um endabúnað, viðtöku merkis, vöktun og úrvinnslu. Var aldrei ráðist í uppsetningu þessara véla? Var það vegna peningaleysis lögreglu eins og Snorri Magnússon segir?