24.1.2017 15:00

Þriðjudagur 24. 01. 17

Í raun er óskiljanlegt að bresku ríkisstjórninni skyldi hafa dottið í hug að hún gæti gengið til viðræðna um úrsögn úr ESB án þess að kynna þinginu á formlegan hátt samningsmarkmið sín. Deilan um þetta sem lauk með dómi hæstaréttar í dag ræðst meðal annars af því að Bretar hafa ekki skrifaða stjórnarskrá og hafa aldrei staðið í þessum sporum áður.

Ríkisstjórnin sagði að ráðherrar hefðu heimild til að gera alþjóðasamninga og ættu einnig að hafa heimild til að binda enda á aðild að þeim og þess vegna virkja úrsagnarákvæðin í 50. gr. sáttmála ESB. Á það var hins vegar bent að úrsögn úr ESB mundi leiða til umtalsverðra breytinga á breskum lögum og réttarstöðu íbúa Bretlands þess vegna yrði að taka ákvörðun um hana með lögum.

Kjarni málshöfðunarinnar var að breska þingið eitt gæti sett lög og því gæti þingið eitt ákveðið að ráðist skyldi í breytingar á þeim með úrsögn úr ESB. Meirihluti hæstaréttar (8:3) féllst á þetta.

Forseti hæstaréttar tók fram að málið snerist alls ekki um hvort rétt væri að fara úr ESB, hvernig það skyldi gert, tímasetningar í tengslum við úrsögnina eða hvernig framtíðarsamskiptum Breta við ESB skyldi háttað.

Beri menn þessi ágreiningsmál í Bretlandi saman við það sem deilt er um hér vegna afturköllunar ESB-umsóknarinnar sjá þeir hve fráleitt er að samþykki alþingis þurfi við bréfi Gunnars Braga Sveinssonar til ESB frá 12. mars 2015 um að ríkisstjórnin teldi Ísland ekki lengur í hópi umsóknarríkja og færi þess á leit við ESB að sambandið tæki hér eftir mið af því.

Engum hefur dottið í hug að leita til dómstóla hér til að hnekkja tilkynningu Gunnars Braga. Fréttir í DV  herma hins vegar að þrír alþingismenn Samfylkingarinnar íhugi alvarlega að flytja tillögu til ályktunar á þingi um að þjóðin samþykki að halda áfram ESB-viðræðum á grundvelli afturkölluðu umsóknarinnar frá 2009.

Samfylkingin hefur allt frá upphafi rekið ESB-málið öðrum þræði til að skapa vandræði innan annarra stjórnmálaflokka vegna þess. Að flytja tillögu í þessa veru nú yrði einmitt gert í þeim anda.

Þríeykið í Samfylkingunni ætti að minnast þess að flokkur þeirra hefur farið verst vegna ESB-málsins. Sjálfseyðingarhvötin er líklega takmarkalaus innan flokksins.