18.1.2017 14:00

Miðvikudagur 18. 01. 17

Í dag ræddi ég við dr. Sigurð Yngva Kristinsson, prófessor við Háskóla Íslands, í þætti mínum á ÍNN. Hann er í forystu verkefnisins blóðskimun til bjargarm þjóðarátaks gegn mergæxlum sem hóst formlega 15. nóvember 2016 og nær til 148.000 Íslendinga, allra sem eru fæddir fyrir árið 1975. Hér er um merkilegt rannsóknarverkefni að ræða eina „viðamæstu vísindarannsókn sem hefur verið ráðist í á Íslandi,“ segir í kynningarbæklingnum sem hefur verið sendur til þeirra sem boðin er þátttaka í verkefninu.

Verkefnið er algjörlega sjálfbært, ef svo má orða það. Til þess hefur verið aflað styrkja innan lands og utan auk þess sem stofnað hefur verið til samstarfs við aðila í Bretlandi sem greinir blóðsýni á kostnað breskra sjóða. Ekki er um að ræða framlag á fjárlögum íslenska ríkisins til þessa verkefnis sem getur skipt sköpum í öllum heiminum gegn sjúkdómi sem nær til 20 til 25 Íslendinga á ári.

Vonandi verður samtal okkar Sigurðar Yngva til þess að kveikja áhuga sem flestra á þátttöku. Ég spurði hann hvers vegna ég hefði fengið bréf en ekki Rut, kona mín. Þá kom í ljós að eftir margra ára undirbúning við að semja bréf og kynningargögn reyndist dreifingin á þeim ekki takast eins og við var búist og í boði er hjá þeim sem annast póstdreifingu. Sigurður Yngvi og samstarfsfólk hans hefur ekki fengið neina haldbæra skýringu á því hvað gerðist. Er nú sjálfstætt rannsóknarefni að finna út úr því.

Þeir sem fæddir eru fyrir 1975 og vilja taka þátt í verkefninu blóðskimun til bjargar en hafa ekki fengið bréf með ósk um þátttöku þeirra geta farið inn á vefsíðuna www.blodskimun.is og skráð sig til þátttöku.

Samtal okkar Sigurðar Yngva verður frumsýnt klukkan 20.00 í kvöld á ÍNN.