17.1.1999

Vatíkanið - menningarsamningur - stjórnmál

Um mitt sumar barst mér boð frá Paul Poupard kardínála, sem er í forystu menningarráðs Páfastóls, um að taka þátt í málþingi í Vatíkaninu um Krist sem uppsprettu nýrrar menningar fyrir Evrópu á nýju árþúsundi.Var þingið haldið 11. til 14. janúar og fór fram innan veggja Vatíkansins.Til málþingsins var stofnað í því skyni að undirbúa ráðstefnu evrópskra biskupa, sem efnt verður til í haust.Næsta ár verður síðan fagnað heilögu ári í Róm á 2000 ára afmæli Krists. Hlutverk mitt á málþinginu var að stjórna einum fundi þess, en alls sátum við þarna í fjóra daga á ströngum fundum, hlýddum á erindi og tókum þátt í umræðum.Við upphaf þess fundar sem ég stjórnaði sagði ég nokkur orð. Þátttakendur voru 47 fyrir utan kardínála og presta. Flestir komu þeir úr röðum fræðimanna á sviði guðfræði og heimspeki. Einnig voru þarna stjórnmálamenn, listamenn og fjölmiðlamenn. Konur voru ekki síður virkar á fundinum en karlar og mótmælendur eða orþodoxar ekki síður en katólskir.Var mér sagt, að þingið væri meðal annars sérstætt í sögu Vatíkansins að því leyti, að ekki væri aðeins hlýtt á vandlega undirbúin erindi heldur einnig gefið tækifæri til athugasemda og fyrirspurna.Voru umræður oft líflegar og drógu menn ekkert undan, ef þeir töldu ástæðu til að gagnrýna framgöngu kirkjunnar. Má þar til dæmis nefna lýsingu pólska kvikmyndagerðarmannsins Krzysztofs Zanussi á áhugaleysi preláta á kvikmyndum, hvatti hann kirkjuna til að nýta sér þá tækni meira og betur.Má segja, að þetta hafi ekki verið nein hallelúja-samkoma, þótt hún hafi verið haldin á helgum stað og allt farið fram af einstökum virðuleika undir árvökulum augum Poupards kardínála og manna hans.Í hópi þeirra, sem stjórnuðu fundum auk mín voru Irina Alberti Ilovaiskaja, ritstjóri blaðsins La Pensée Russe í París, Vincent Tabone, fyrverandi forseti Möltu, og Federico Mayor, forstjóri UNESCO í París.Marga alþjóðlega fundi hef ég setið, enginn þeirra kemst þó í hálfkvisti við þennan, þegar litið er til umræðuefnis og umgjarðar. Þarna var rætt um grundvallaratriði trúarinnar, sannleikann, sem í henni felst, og hvernig unnt er að breiða hann út og nýta við núverandi aðstæður, þegar allt er talið afstætt og menn láta frekar stjórnast af tilfinningum en því að taka afstöðu á traustum grunni.Í umræðum um trú og heimspeki var sérstaklega varað við nihilisma. Páfinn hefur sagt um þá heimspekistefnu, að hún snúist ekki um neitt og hafi sem slík nokkurt aðdráttarafl fyrir fólk í samtímanum.Á málþinginu átti póstmódernisminn sér ekki málsvara og var hann harðlega gagnrýndur. Jóhannes Páll páfi II ávarpaði málþingið, þegar við gengum fyrir hann um hádegisbil fimmtudaginn 14. janúar í Sala Concistoro í þeim hluta Vatíkansins, þar sem páfinn býr. Þar ítrekaði hann það, sem hann hefur oft sagt, að saga Evrópu í tvö árþúsund væri samofin sögu kristninnar. Þótt allir Evrópubúar teldu sig ekki kristna hefðu þeir orðið fyrir svo miklum áhrifum af kristnum boðskap, að án hans væri tæplega unnt að tala um Evrópu. Hin kristna menning skapaði sameiginlegar rætur okkar Evrópubúa. Leitin að sannleikanum ætti að vera grundvöllur allrar menningarviðleitni, í því fælist virðing fyrir manninum og rétti hans, einkum bæri að virða málfrelsi hans og trúfrelsi. Í heimi, þar sem tekist væri á við mörg vandamál, opnaði boðskapur Krists óravíddir, veitti óviðjafnanlegan kraft, ljós í þekkingarleit, viljanum afl og hjartanu kærleika.Að loknu ávarpi sínu heilsaði páfi hverjum og einum og veitti blessun. Jóhannes Páll páfi II kom hingað til lands 1989 en á síðasta ári voru 20 ár liðin frá því að hann var kjörinn páfi. Hann er orðinn nokkuð hrumur og talar ekki eins skýrt og áður en andlega heldur hann kröftum sínum.Ég hef lengi dáðst af páfanum og við störf mín sem blaðamaður á níunda áratugnum lagði ég mig fram um að segja fréttir af störfum hans og ferðalögum. Sumarið 1997 ritaði ég eftirfarandi grein um páfann í DV:„Duldir straumar samtímans Tveir heimskunnir blaðamenn, Carl Bernstein og Marco Politi, sendu í fyrra frá sér bók um Jóhannes Pál páfa II, sem heitir á ensku His Holiness eða Hans heilagleiki. Í undirtitli segir, að í bókinni sé greint frá páfanum og hulinni sögu okkar tíma.Að meginstofni snýst bókin um hlutdeild Jóhannesar Páls páfa II í hruni kommúnismans og upplausn Sovétríkjanna. Er því lýst, hve náið páfinn og Ronald Reagan Bandaríkjaforseti störfuðu saman að því að koma einræðiskerfi marxismans fyrir kattarnef.Þótt sá, sem þetta ritar, hafi á níunda áratugnum fylgst náið með því, sem efst var á baugi í alþjóðamálum og ekki síst í samskiptum austurs og vesturs, kemur margt á óvart, þegar lesið er um hlut páfa í atburðarásinni. Hann beitti sér með slíkum innri styrk, að ekkert fékk bugað hann, auk þess sem hann hafði öðlast trúarlega vissu fyrir því, að Sovétríkin mundu líða undir lok. Tengdist hún spádómi heilagrar Maríu, þegar hún birtist þremur börnum í Fatíma í Portúgal, en þau sáu hana fyrst 13. maí 1917.Hinn 13. maí 1981 varð páfinn fyrir skotárás á Péturstorgi í Róm. Hefur aldrei verið upplýst til fullnustu, hverjir stóðu á bakvið árásarmanninn en böndin bárust að Búlgörum, sem á þessum árum voru helstu skósveinar rússneska Sovétvaldsins. Telur páfi, að lífi sínu hafi verið bjargað með kraftaverki Meyjarinnar frá Fatíma.Skírskotun til æskunnarJóhannes Páll páfi II hefur lagt sig sérstaklega fram um að ná til ungs fólks. Í því skyni stofnaði hann til æskulýðshátíðar árið 1986. Er hún haldin annað hvort ár í Evrópu, Asíu og Ameríku. Til hátíðarinnar koma pílagrímar úr öllum heimshornum og leggja sameiginlega rækt við trú sína.Hátíðin var haldin í París um miðjan ágúst síðastliðinn. Var talið, að hún yrði líklega ekki sérlega rismikil. Mikið var rætt um mengunarhættu í París í óvenjumiklum sumarhitum og fólk kysi vafalaust frekar að fara úr borginni í þessum frímánuði Frakka en taka þátt í hátíð með hinum gamla, íhaldssama páfa. Töldu hinir bjartsýnustu, að um 300 þúsund manns myndu sækja hátíðina. Svartsýnismennirnir sögðu, að það myndu áreiðanlega færri hlýða á páfann en tóku þátt í mótmælagöngu samkynhneigðra í París fyrr í sumar.Þegar á reyndi varð þátttaka í hátíðarhöldunum miklu meiri en nokkur þorði að vona. Lokamessuna í rúmlega 30 stiga hita og sólskini á sunnudagsmorgni sóttu meira en milljón manns - hefur meiri mannfjöldi aldrei komið saman við einn atburð í París.Áhuginn var ekki minni hjá þeim, sem sátu heima við sjónvarpið og fylgdust með þriggja tíma athöfninni.Leit að gildumAfstaða páfans til manna og málefna byggist á fastmótuðum gildum en ekki tískusveiflum. Hann hafnaði alfarið daðri kirkjunnar við marxískar kenningar og snerist gegn svonefndri frelsunarguðfræði í Suður-Ameríku. Þá hefur hann stjórnað innri málefnum kirkjunnar af mikilli festu. Hann vill alls ekki slaka neitt á hinu óskoraða valdi páfa og krefst skilyrðislausrar hlýðni. Afstaða hans til kynlífs og fóstureyðinga á ekki upp á pallborðið hjá þeim, sem boða frjálslyndi í þessum efnum.Þeir, sem hafa leitast við að skilgreina hið mikla aðdráttarafl páfans í París, segja, að stefnufesta hans hafi ráðið mestu. Þótt áheyrendur hans séu honum ekki sammála um allt, virði þeir heiðarleika hans, einlægni og hugrekki.Metin að verðleikumMóðir Teresa er jarðsett í dag í Kalkútta.Hún hefur eins og Jóhannes Páll páfi II sett einstakan svip á samtíðina og höfðað til manna um heim allan vegna trúar sinnar og fórnfýsi. Lýsingin á hinni huldu sögu samtímans í lífi og starfi þeirra, sem vinna undir heilagri forsjón, minnir okkur á, að víða eru að gerast atburðir, sem við skiljum hvorki né skynjum til fulls.Virðing móðir Teresu og áhuginn á því að hlusta á páfann í París sýna, að enn meta margir störf, sem unnin eru af einlægni í þágu góðs málstaðar en ekki til þess að sýnast eða svala eigin athyglissýki.”Má segja, að hinn sami andi og þarna er lýst hafi svifið yfir málþinginu í Vatíkaninu, því að hina heilögu forsjón og dulda kraftar trúarinnar bar oft á góma. Raunar er ógjörlegt fyrir okkur mótmælendur að skilja til fulls, hve mikið trúarlegt gildi það hefur fyrir katólska meðbræður okkar að komast í návist páfans og hljóta blessun hans. Enginn verður ósnortinn af því að vera í návist Jóhannesar Páls páfa II, hvort sem hann er katólskur eða ekki, af honum skín hátíðlegur og einlægur innri kraftur.Átakanlegt var að hlusta á lýsingar þeirra, sem komu frá Rússlandi, Úkraínu, Lettlandi, Rúmeníu, Póllandi og Albaníu á ástandinu í löndum þeirra. Sérstaklega var áhrifamikið að hlusta á Zbigniew Nosowski, ritstjóra frá Póllandi, lýsa því, hve mjög það spillti heiðarlegum umræðum um stjórnmál í landi hans, að ekki hefði verið gert upp við hina kommúnísku fortíð.Umskiptin í Evrópu við uppgjöf kommúnismans, sem hófust með hruni Berlínarmúrsins 1989, eru þess eðlis, að í samtímanum eigum við erfitt að átta okkur á því, hvað í þeim felst. Við getum þó ekki ýtt þeirri staðreynd frá okkur, að í 70 ár var fylgt stefnu í Sovétríkjunum og leppríkjum Moskvuvaldsins, sem stefnt var gegn kristninni og öllu því, sem henni fylgir, ætlunin var að búa til nýjan, heiðinn mann, homo sovieticus.Ég minnist oft þeirrar kenningar, að andlegi vandinn eftir hrun kommúnismans yrði mun verri viðureignar en hinn efnahagslegi. Vitnisburður þeirra, sem bjuggu við glæpastjórn kommúnista, staðfesti þessa kenningu. Gleymum því ekki, að Maó og Stalín, leiðtogar kommúnismans, sýndu mannslífinu jafnvel meiri fyrirlitningu en Hitler. Á hinn bóginn umgangast menn minninguna um Stalín með öðrum hætti en um Hitler, svo að ekki sé rætt um Maó, sem er jafnvel enn sungið lof, meira að segja hér á landi. Hvað yrði sagt, ef talað væri um Hitler með sama hætti? Hverjum dytti það raunar í hug?Hér er ekki ætlunin að gera grein fyrir því, sem rætt var á málþinginu í Vatíkaninu. Hinu skal lýst nokkrum orðum, hvernig var að búa innan veggja þess í fimm daga, í næsta húsi við hina miklu Péturskirkju.Okkur málþingsgestum var boðið að gista í Domus Sanctae Marta í Casa Santa Marta. Þetta er nýtt gistihús, sem var reist í þeim megintilgangi að hýsa kardínála, þegar þeir koma saman í Róm til að kjósa páfa.Í fyrrnefndri bók um Jóhannes Pál páfa II er sagt frá því, að þannig hafi verið búið að kardínálum haustið 1978, þegar þeir komu síðast saman til páfakjörs, að þeir hafi gist í klefum, sem hafi verið innréttaðir til bráðabirgða í gömlum híbýlum Borgia-páfanna. Í hverjum klefa hafi verið beddi, náttborð og lítið skrifborð. Sameiginlegt baðherbergi hafi þjónað þeim.Í Casa Santa Marta er aðstaðan allt önnur, þótt þar sé enginn íburður. Í tölvupósti hafði verið sagt, að aðeins væri um eins manns herbergi að ræða, en þegar við Rut komum á staðinn hafði aukarúm verið flutt í rúmgott svefnherbergið, en framan við það var skrifstofa með tveimur stólum við allstórt skrifborð. Má því segja að hver kardínáli hafi nú litla íbúð með baði til ráðstöfunar. Sími er í íbúðinni en hvorki útvarp né sjónvarp. Þá virðast menn þurfa að fara út fyrir Vatíkanið, vilji þeir kaupa dagblöð, raunar sjást ekki neinar verslanir innan veggja þess.Á fyrstu hæð Domus Sanctae Marta er stór borðsalur, þar sem nunnur með aðstoðarkonum ganga um beina. Á sömu hæð er einnig sameiginlegt sjónvarpsherbergi. Húsinu tilheyrir einstaklega falleg kapella, þar sem sungin var messa á hverjum morgni, á meðan við dvöldumst þar.Kyrrðin er algjör í byggingunni og raunar næsta einkennilegt að hugsa til þess í þögninni, að rétt utan við múra Vatíkansins sé iðandi mannlíf og stöðugt umferðaröngþveiti stórborgar, sem er sprungin utan af sjálfri sér.Okkur var einnig boðið að skoða Sixtinsku-kappelluna, sem var reist 1475 til 82 fyrir Sixtus IV páfa þar sem kardínálarnir koma saman til að greiða atkvæði um nýjan páfa undir málverki Michelangelo, Dómsdegi. Listaverkin í kapellunni hafa verið hreinsuð og er hún eins og annað í þeim hluta Vatíkansins meðal helstu dýrgripa mannkyns.Til að komast frá Casa Santa Marta í kapelluna geta kardínálarnar gengið í prósessíu í gegnum anddyri Péturskirkjunnar. Aðrar leiðir hljóta einnig að vera á milli þessara bygginga, því að öryggisgæslan í kringum páfakjörið er mikil og rík áhersla lögð á þagmælsku og að engar aðrar fréttir berist af gjörðum kardínálanna en þær, sem sjá má af reyknum úr Sixtínsku-kapellunni, svörtum, ef enginn hefur náð kjöri, annars hvítum, Jóhannes Páll páfi II fékk 99 atkvæði af 108.Málþingið var haldið í stórri ráðstefnubyggingu, þar er meðal annars salur, sem rúmar 6000 manns. Á miðvikudagsmorgnum tekur páfi þar á móti pílagrímum, sem votta honum virðingu sína og hljóta blessun hans. Byggingin er á svæði undir öryggisgæslu hinna svissnesku varðmanna Vatíkansins.Til þess að komast inn í Vatíkanið sjálft þarf hins vegar að fara í gegnum annað öryggishlið. Miðvikudagsmorguninn 13. janúar þegar páfi tók á móti pílagrímunum í byggingunni var öryggisgæslan meiri en endranær en það var einmitt við slíka móttöku páfa á Péturstorginu sjálfu, sem hann varð fyrir skotárás 1981.Í hádegishléi einn fundardaginn gekk ég óáreittur af öryggisvörðum um garða Vatíkansins. Þar eru fagrar styttur frá fornum tíma og glæsilegir gosbrunnar. Í huga nútímannsins koma leikmunir í kvikmyndum um forna tíma helst í hugann, þegar gengið er um garðana, en þetta eru þó engir slíkir munir heldur listaverk, sem hafa staðið í hundruð ára. Páfinn býr í einfaldri íbúð og snúa tveir gluggar hennar út að Péturstorginu, ávarpar hann fólk á torginu úr öðrum glugganum klukkan 12 á sunnudögum. Fram til klukkan 23 á kvöldin má sjá ljós í gluggunum og hvergi annars staðar í byggingunni. Hinir einföldu lifnaðarhættir páfans bera ekki svip af listaverkunum og gullinu, sem einkenna sali og híbýli forvera hans.Þetta var fyrsta heimsókn mín til Rómar. Þótt tími til að skoða borgina eilífu væri ekki mikill gafst þó tækifæri til að fara um Colosseum og Forum Romanum, einnig náðum við því að fara í Englakastalann sunnudaginn 10. janúar, síðasta daginn, sem málverk íslenskra listamanna voru þar til sýnis, en forseti Íslands opnaði sýninguna, þegar hann var í heimsókn í Róm í nóvember. Við fórum í kastalann, sem er í göngufæri frá Vatíkaninu með Antonio La Rocca aðalræðismanni.Ræðismaðurinn var einnig með okkur síðdegis fimmtudaginn 14. janúar, þegar við fórum í utanríkisráðuneytið, þar sem ég ritaði undir tvíhliða samning um samskipti á sviði menningar, mennta og vísinda við Ítali.Patrizia Toia, öldungardeildarþingmaður og aðstoðarutanríkisráðherra, sem fer með menningarmál, ritaði undir samninginn fyrir hönd Ítala. Það hefur verið í bígerð allan þennan áratug að gera samning af þessu tagi, þótt það væri ekki fyrr en nú, að smiðshöggið var rekið á verkið.Að mínu mati hefur gildi tvíhliða samninga af þessu tagi minnkað, eftir að við urðum virkir þátttakendur í mennta-, menningar- og vísindasamstarfi Evrópuþjóða, en þó hafa margir talið sérstaklega mikilvægt að koma á tvíhliða sambandi af þessu tagi við Ítali til að tryggja sem best samstarf við hina miklu menningarþjóð.Auk okkar Rutar og ræðismannsins var Dr. Wladimiro Bombacci við undirritun samningsins, en hann er forstöðumaður Íslandsvinafélags, sem hann stofnaði á Ítalíu 1975. Bombacci hefur oft komið til Íslands til fjallgöngu, klifurs og annarra ferða. Var ánægjulegt að kynnast áhuga hans og aðalræðismannsins á því að efla tengsl þjóðanna og töldu þeir báðir, að samningurinn skipti miklu í því efni.Í umræðunum við ítalska ráðherrann kom fram, að óvenjulegur stöðugleiki er talinn ríkja í ítölskum stjórnmálum um þessar mundir, þegar líkur eru taldar á því, að eitt kjörtímabil geti runnið á enda án þess að fleiri ríkisstjórnir en tvær sitji. Sjálf hefur ráðherrann setið í um það bil tvö ár í ríkisstjórninni, en hún kemur úr miðflokki, samstarfsmenn hennar núna í ríkisstjórn eru úr gamla ítalska kommúnistaflokknum, en þeir hafa stigið mörg skref til hægri.Var því slegið upp á forsíðum blaðanna, að í lok síðustu viku hitti páfi gamla kommúnistann, sem nú er forsætisráðherra, þótti það gæðastimpill fyrir ráðherrann. Hvarvetna í Evrópu standa vinstri menn og sósíalistar frammi fyrir nauðsyn uppgjörs, ber það að með mismunandi hætti og að mínu mati fara þeir verst út úr því, sem neita að viðurkenna nauðsyn uppgjörsins. Er það meðal vanda vinstrisinna á Íslandi.Svavar Gestsson tilkynnti fyrir tveimur vikum, að hann ætlaði að hætta beinni þátttöku í stjórnmálum og yrði ekki í framboði að nýju til þings. Fyrir síðustu kosningar kom oftar en einu sinni til orðahnippinga milli okkar Svavars um nauðsyn þess, að Alþýðubandalagið gerði upp við sig, hvaða flokkur það eiginlega væri. Ekki væri nóg að vísa til þess, að 1968 hefði flokkurinn ákveðið að slíta tengslin við kommúnistaflokkana í A-Evrópu.Enn þann dag í dag telur forysta flokksins sér það til tekna að fara í pílagrímsferðir til kommúnistalanda, nýleg heimsókn til Kúbu staðfestir það. Hún var farin í pólitískum tilgangi af hálfu þeirra stjórnmálamanna, sem voru í ferðinni.Umrótið á vinstrikanti íslenskra stjórnmálamanna verður að skoða í ljósi hinna sögulegu breytinga, sem hafa orðið í Evrópu. Þrír flokkar eru að verða að engu, Alþýðubandalag, Alþýðuflokkur og Kvennalisti.Alþýðuflokkurinn varð fyrst fyrir innrás frá Alþýðubandalaginu, sem síðan hefur klofnað í fleiri hluta. Við höfum núna eignast hér flokk á borð við þá, sem kallaðir eru melónuflokkar í Evrópu, vegna þess að þeir eru grænir að utan en rauðir að innan.Talsmenn vandræðabandalaganna á vinstri kantinum láta í veðri vaka, að ekkert sé að marka niðurstöður skoðanakannana, af því að þeir hafi ekki kynnt stefnu sína. Var það þó gert á liðnu hausti, án þess að annað gerðist en fylgi bræðingsins hefur minnkað jafnt og þétt.Kannanir sýna vafalaust meira fylgi við Sjálfstæðisflokkinn núna en hann fær í kosningum, sagan kennir okkur það. Til að verða trúverðugir andstæðingar okkar sjálfstæðismanna verða félagarnir í vandræðabandalögunum að vera sjálfum sér samkvæmir, þora að kannast við það, sem þeir segja, og vita, hvað í því felst.Að sumu leyti minnir stjórnmálastarf þeirra nokkuð á nihilisma, það er að segja, að mikið veður sé gert í fjölmiðlum og á mannamótum í kringum ekki neitt. Margir stuðningsmenn Verkamannaflokksins og Tonys Blairs í Bretlandi vissu, að hann fylgdi ekki fastmótaðri stjórnmálastefnu en lifðu í þeirri trú, að hann væri með annað og betra yfirbragð en íhaldsmenn eftir 18 ára setu í ríkisstjórn. Afsögn ráðherra úr stjórn Blairs vegna óviðurkvæmilegra fjármálaumsvifa hefur svipt þetta fólk þessari trú. Hvað stendur þá eftir?